Greining Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 2,1% í október. Gangi spáin eftir verður 12 mánaða verðbólga 15,8%.

Í Morgunkorni Glitnis í morgun eru matur og drykkjarvörur sagðir vera stærsti áhrifavaldurinn í hækkun VNV í október, en greiningardeildin spáir ríflega 6% hækkun á matarverði milli mánaða sem skilar sér í 0,8% hækkun VNV nú.

Föt og skór hækka að mati Greiningar Glitnis um tæplega 5% (áhrif á VNV 0,2%), húsgögn og heimilisbúnaður um 4% (0,3% í VNV) og ferðir og flutningar um tæp 2% (0,3% í VNV).

Þá er því spáð að liðurinn húsnæði, hiti og rafmagn hækki um 0,5%, fyrst og fremst vegna nýlegrar hækkunar á verðskrá Orkuveitu Reykjavíkur, og hefur það 0,14% hækkun VNV í för með sér.

Í Morgunkorni er þó tekið fram að mikil óvissa er í spánni, bæði vegna þess að raunverulegt innflutningsverð innfluttrar vöru hefur verið á reiki í umróti undanfarinna vikna, og eins þar sem tilboð og útsölur af ýmsu tagi hafa skotið upp kollinum á síðustu vikum.

Krónan ráðandi í verðbólguþróun

Þá kemur jafnframt fram í Morgunkorni að verðbólguhorfur næstu mánaða mótast fyrst og fremst af gengisþróun krónu, og kannski ekki síður af aðgengi innflutningsfyrirtækja að gjaldeyri næsta kastið.

„Sé gert ráð fyrir að innflutningsfyrirtækin fái gjaldeyri á svipuðum kjörum næstu vikurnar og verið hefur undanfarna daga í uppboðum Seðlabankans (EUR/ISK 150) mun verð á innfluttum vörum með mikinn veltuhraða, sér í lagi dagvöru, hækka talsvert meira en orðið er og vörur sem lengur staldra við í vörugeymslum og verslunum svo fylgja í kjölfarið,“ segir í Morgnkorni.

Greining Glitnis segir gengisáhrif verðbólgu því koma að mestu leyti fram á 3-6 mánuðum hér á landi, „og má því segja að u.þ.b. 25% hækkun á gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu í september og október komi fram í neysluverð rétt í þann mund sem áhrif af gengisfallinu í mars eru að fjara út,“ segir í Morgunkorni.

Þá er tekið fram að á móti vegur svo veruleg lækkun hrávöruverðs á heimsmarkaði og væntanleg lækkun húsnæðisliðar, bæði íbúðaverðs og vaxtaþáttar.

„Innlendur kostnaðarþrýstingur verður tæpast verulegur ef einnig er tekið mið af hratt versnandi horfum á vinnumarkaði,“ segir í Morgunkorni.

„Verðbólga gæti því slegið í eða yfir 20% á allra næstu mánuðum en mun í kjölfarið lækka hratt, sér í lagi þegar verðbólgumánuðirnir febrúar-maí, þar sem VNV hækkaði um tæplega 8%, detta út úr 12 mánaða taktinum“