Greining Glitnis spáir 2,3% hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember, sem þýðir að ársverðbólgan eykst úr 15,9% í 17,8%.

Í Morgunkorni kemur fram að það eru innflutningsdrifnir liðir á borð við mat og drykkjarvörur, föt og skó, húsgögn og heimilisbúnað auk ýmissa undirliða ferða og flutninga sem þrýsta neysluverði upp um þessar mundir.

Þeir liðir sem tengjast frekar innlendum vörum og þjónustu breytast mun minna. Til lækkunar vega svo eldsneyti og húsnæðisliður vísitölunnar ef spá greiningardeildarinnar gengur eftir.

Gengisfall krónu höfuðorsökin

Gengisvísitalan hefur hækkað um rúmlega 40% frá byrjun septembermánaðar.

„Slík gengislækkun sem ekki gengur til baka til skemmri tíma leiðir að okkar mati til u.þ.b. 15% hækkunar neysluverðs að öðru óbreyttu,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

„Það mildar þó höggið töluvert að hrávöruverð hefur lækkað mikið frá miðju ári á heimsmörkuðum. Krónan er í raun nánast eini verðbólguvaldurinn um þessar mundir.“

Þá kemur fram að húsnæðisverð hefur nánast staðið í stað undanfarið og útlit er fyrir talsverða nafnverðslækkun þess á komandi misserum. Þá hefur ört vaxandi atvinnuleysi tekið við af yfirspenntum vinnumarkaði og snarlega hefur hægt á launaskriði.

Greining Glitnis segir slæmar horfur í efnahags- og atvinnulífinu virðast hafa dregið úr þrýstingi á endurskoðun kjarasamninga til umtalsverðrar launahækkunar í vetur. Hrávöruverð hefur auk þess lækkað mikið sem fyrr segir og slæmar efnahagshorfur á heimsvísu draga úr öðrum erlendum verðþrýstingi.

Verðbólgan fer hratt niður á næsta ári

Þá segir Greining Glitnis að verðbólga á næstu misserum muni ráðast að langmestu leyti af gengisþróun krónu. Um hana ríkir geysimikil óvissa þar sem landið er í miðri gjaldeyriskreppu og skömmtun ríkir á gjaldeyrismarkaði.

„Spá okkar byggir í grófum dráttum á því að krónan verði á svipuðum slóðum og nú út árið, en fari síðan að styrkjast hægt og bítandi og nái einhvers konar langtímajafnvægi undir lok næsta árs,“ segir í Morgunkorni.

„Miðað við þær forsendur gerum við ráð fyrir að verðbólga fari hæst í ríflega 19% í upphafi næsta árs. Frá og með febrúar tekur verðbólgan hins vegar að minnka allhratt og hjálpast þar að nánast engin vísitöluhækkun og það að stórir verðbólgumánuðir frá fyrri hluta þessa árs detta út úr 12 mánaða taktinum. Verðbólga mun að okkar mati ná 2,5% markmiði Seðlabankans í árslok og verður verðbólga lítil í kjölfarið. Raunar er talsverð hætta á verðhjöðnunarskeiði í kring um áratugamótin og mun Seðlabankinn væntanlega bregðast við slíku ástandi með mikilli lækkun stýrivaxta, enda getur verðhjöðnun orðið að vítahring sem erfitt er að rjúfa.“