Greining Glitnis gerir ráð fyrr að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 1,1% í febrúar. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða taktur verðbólgu verða 18,3% og verðbólga mæld með þeim hætti því hjaðna um 0,3 prósentustig frá fyrri mánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis en greiningardeildin segir útsölulok setja svip sinn á mælingu febrúarmánaðar og gerir ráð fyrir föt og skór hækki um ríflega 11% vegna þessa, sem hefur áhrif til 0,5% hækkunar VNV.

Þá muni áhrif útsöluloka á annan varning á borð við húsbúnað og tækjakost einnig vera nokkur. Við þetta bætast áhrif af gengislækkun krónu á seinni hluta síðasta árs en á hinni bóginn gerir Greining Glitnis ráð fyrir að húsnæðisliður vísitölunnar lækki lítillega.

Útlit fyrir hraða hjöðnun verðbólgu

Í Morgunkorni kemur fram að margt bendi nú til að hátindi verðbólguskotsins sem staðið hefur undanfarið ár sé loks náð.

„Ef spá okkar um verðbólguþróun reynist á rökum reist mun VNV hækka um tæpt prósentustig samanlagt í mars og apríl,“ segir í Morgunkorni.

„Á sama tímabili í fyrra hækkaði VNV hins vegar um tæp 5%, og því allar líkur á að 12 mánaða verðbólga hjaðni verulega á vormánuðum. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að áfram dragi úr verðbólgu, og spáum við því að verðbólga verði komin undir 5% að ári liðnu. Á seinni hluta spátímans teljum við að verðbólga reynist lítil og raunar eru töluverðar líkur á að verðhjöðnun eigi sér stað um skeið einhvern tíma á næstu misserum.“

Sjá nánar Morgunkorn Glitnis.