Greining Glitnis telur að  vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,7% í janúar. Ef spá greiningardeildarinnar gengur eftir mun ársverðbólga aukast úr 18,1% í 18,7%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Þar segir Greining Glitnis að eins og jafnan í janúar togast nú á áhrif af útsölum og verðskrárhækkanir, en til viðbótar eru áhrif af gengisfalli krónu á seinni hluta síðasta árs, sem enn er að ýta upp verðlagi á ýmsum neysluvörum.

„Á heildina litið gerum við þó ráð fyrir að verðlækkun á fötum og skóm vegi til 0,5% lækkunar á VNV, auk þess sem útsölur draga úr hækkunartakti ýmissa annarra undirliða,“ segir í Morgunkorni.

„Þá var komugjald vegna ýmiss konar heilbrigðisþjónustu hækkað töluvert um áramót, sem og verð á raforku, auk þess sem áhrif af hækkun áfengisgjalds og tóbaksgjalds í desember koma að verulegum hluta fram nú. Teljum við að þessi hækkun á opinberum verðskrám og álögum hækki VNV um 0,4%.“

Þá telur Greining Glitnis að verðbólga sé nú við hámark og að á næstu mánuðum muni draga verulega úr skriðþunga hennar. Frá og með febrúar taki einnig að heltast úr lestinni mánuðir mikillar verðbólgu þegar horft er til 12 mánaða hækkunartaktsins, og gerir Greining Glitnis því ráð fyrir allhraðri hjöðnun 12 mánaða verðbólgu frá og með 2. fjórðungi ársins.

„Ef spá okkar gengur eftir verður verðbólga komin niður í 14% um mitt þetta ár og niður fyrir 5% í upphafi næsta árs,“ segir í Morgunkorni.

Sjá nánar Morgunkorn Glitnis.