Líklegt er að staða fjármálakerfisins hér á landi væri með öðru sniði í dag ef að Ísland hefði verið aðili að ESB með evru sem gjaldmiðil og öruggt bakland í Seðlabanka Evrópu þegar óveðrið skall á.

Landinn væri þá a.m.k. ekki að takast á við gjaldeyriskreppu og alveg spurning hvort að bankakreppan væri hér.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í dag þar sem fjallað er um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB).

Greining Glitnis vitnar í Morgunkorni sínu í orð forsætisráðherra Írlands sem sagði nýlega að aðild að ESB og upptaka evrunnar hefði bjargað Írlandi frá því að hljóta sömu örlög og Ísland í fjármálakreppunni.

Þá segir greiningardeildin að Ungverjaland hefði verið talið standa skör frammar meðal þeirra ríkja sem leitað hafa til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) vegna þeirrar verndar sem Ungverjar njóta nú þegar í gegnum aðild sína að ESB.

„Það má öllum vera ljóst að Ísland hefði fengið meiri stuðning frá Evrópuþjóðum og Seðlabanka Evrópu ef við hefðum verið aðilar að Evrópusambandinu,“ segir í Morgunkorni.

„Þetta hlýtur að vega þungt þegar við munum skoða hvernig hægt verði að koma í veg fyrir að atburðarás síðustu vikna endurtaki sig.“

Greining Glitnis segir að aðild að Evrópusambandinu kunni að skjóta frekari stoðum undir þá miklu uppbyggingu fjármála- og hagkerfisins hér á landi sem nú fer í hönd.