Greining Glitnis gerir ráð fyrir að viðsnúningur verði á einkaneyslu strax á þessu ári sem nær hámarki á næsta ári en þá gerir greiningadeildin ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 4% eftir að hafa dregist saman um 1,5% á þessu ári.

„Nú er svo komið að margir skellir hafa dunið á nánast samtímis sem gera það að verkum að vaxtarskilyrði einkaneyslu eru gjörbreytt frá því sem áður var,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Þá segir Greining Glitnis að lausafjárkrísan geri það að verkum að aðgengi að lánsfé er nú mun þrengra en áður auk þess sem eignaverð hefur ekki farið varhluta af því ástandi sem hefur ríkt á fjármálamörkuðum frá því að lausafjárkrísan braust út á seinni hluta síðasta árs.

„Reynslan sýnir að neytendur bregðast fljótt við þegar blikur eru á lofti. Það kom á daginn í síðustu hagsveiflu, en veturinn 2001 dróst einkaneysla afar hratt saman að undangengnu miklu vaxtarskeiði,“ segir í Morgunkorni.

„Reynslan sýnir hins vegar einnig að neytendur taka að sama skapi fljótt við sér þegar kaupmáttur eykst og horfur batna. Í nýrri Þjóðhagsspá kemur fram að við búumst við skjótum bata einkaneyslu á seinni hluta spátímabilsins þegar lausafjárkrísan verður í rénum og hjól efnahagslífsins verða komin á góðan snúning að nýju.“