Greining Glitnis segir ólíklegt að stýrivextir verði lækkaðir að nýju fyrr en á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Þá telur greiningardeildin að forsenda fyrir vaxtalækkun sé væntanlega að krónan hafi náð stöðugleika og að verðlagsáhrif af gengisfalli undanfarinna mánaða séu tekin að fjara út.

„Hins vegar eru allar líkur á að vaxtalækkunarferlið verði hratt eftir að það hefst, enda verður líklega afar lítill verðbólguþrýstingur fyrir hendi þegar áhrifum af gengi krónu sleppir,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Greining Glitnis segir ört vaxandi atvinnuleysi hafa tekið við af umframeftirspurn eftir starfsfólki á innlendum vinnumarkaði og lækkun húsnæðisverðs vera líklega á komandi mánuðum. Þá hafi stýrivextir verið lækkaðir hvarvetna í helstu viðskiptalöndum okkar, og frekari lækkun líkleg víða.

„Því þurfa innlendir vextir ekki að vera ýkja háir til að viðhalda vaxtamun við útlönd og tempra útflæði fjármagns eftir að meiri ró hefur færst yfir gjaldeyrismarkað,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

„Brýnt er einnig að vextir verði lækkaðir eins fljótt og mikið og Seðlabankinn telur samrýmast markmiðum sínum til þess að afstýra eftir megni djúpri og langvinnri efnahagskreppu hér á landi.“

Óbreyttir stýrivextir um sinn

Greining Glitnis gerir gerum ráð fyrir að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir í 18% eftir vaxtaákvörðunardag bankans næstkomandi fimmtudag.

Vextir bankans voru hækkaðir síðastliðinn þriðjudag, ríflega viku fyrir opinberan vaxtaákvörðunardag bankans. Fram hefur komið að slík hækkun var forsenda fyrir samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) fyrir aðstoð við Ísland og þurfti að koma til framkvæmda áður en viljayfirlýsing IMF og ríkisstjórnar var lögð fyrir stjórn sjóðsins til samþykkis.

„Ekki er hægt að útiloka frekari hækkun vaxta á næstu vikum eða mánuðum,“ segir Greining Glitnis.

Sjá Morgunkorn Glitnis.