Greining Glitnis spáir því í Morgunkorni sínu í morgun að íbúðaverð muni lækka um 4% yfir þetta ár.

Þannig muni draga úr eftirspurn á íbúðamarkaði á næstu mánuðum vegna lánsfjárþurrðar, minnkandi kaupmáttar, versnandi stöðu á vinnumarkaði og væntinga um verðlækkanir íbúðarhúsnæðis.

„Allt þetta leggst á eitt og myndar töluverðan þrýsting til verðlækkunar,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

„Þá hefur framboð íbúðarhúsnæðis aukist undanfarið bæði vegna mikils fjölda nýbygginga og aukins framboðs af notuðu húsnæði. Reikna má með því að enn bætist í framboðið á næstunni sem eykur þrýsting til verðlækkunar.“

Greining Glitnis segir að framhald verði á lítilli eftirspurn á markaðinum og talsverðu framboði. Þá muni atvinnuástand versna og kaupmáttur vaxa hægt.

Einnig gerir greiningardeildin ráð fyrir að aðgengi að lánsfjármagni verði heft fram eftir ári og fjármagnskostnaður hár.

„Við spáum að íbúðaverð hækki um 3% árið 2010 samhliða því að ytri skilyrði íbúðamarkaðarins batna - lánsfjárframboð eykst, atvinnuástand breytist til hins betra á nýjan leik og kaupmáttur vex. Þetta kemur fram í nýrri spá Greiningar um þróun íbúðaverðs,“ segir í Morgunkorni.

Aðgerðir stjórnvalda hægja á kólnun

Greining Glitnis segir stjórnvöld ekki hafa setið með hendur í skauti frá því að tilkynnt var um miðjan júní að gripið yrði til aðgerða til að sporna gegn kólnun á fasteignamarkaði.

„Kemur það ekki á óvart í því ljósi að stór hluti eigna landsmanna er bundinn í íbúðarhúsnæði,“ segir Greining Glitnis.

„Heimilin eru því afar viðkvæm fyrir verðlækkun íbúðarhúsnæðis.“

Þá nefnir greiningardeildin að nýjasta útspil stjórnvalda í þessu skyni eru breytingar á reglum Íbúðalánasjóðs sem gerir lántakendum sem eiga tvær fasteignir kleift að fá greiðslufrest af lánum hjá sjóðnum af annarri eða báðum eignum.

Með þessum reglum komi Íbúðalánasjóður til móts við þá lántakendur sem hafa keypt fasteign án þess að hafa náð að selja þá fasteign sem þeir áttu fyrir.

Þessu til viðbótar hefur hámarksupphæð lána Íbúðalánasjóðs verið hækkuð úr 18 í 20 m.kr., brunabótaviðmið verið afnumið auk þess sem opnað hefur verið fyrir lánveitingar Íbúðalánasjóðs til fjármálafyrirtækja til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum.

„Þessar aðgerðir munu, að minnsta kosti tímabundið, létta á þeim lækkunarþrýstingi sem hefur myndast á íbúðamarkaði að undanförnu,“ segir í Morgunkorni Glitnis.