„Erfiðar aðstæður á alþjóðlegum láns- og lausafjármörkuðum, lítil áhættulyst fjárfesta, birting slakra uppgjöra vestanhafs ásamt hækkandi skuldatryggingarálagi á íslenska ríkið og bankana eru meginorsakavaldar gengislækkunar krónunnar að undanförnu.“ Á þessum orðum hefst ný spá Greiningardeildar Glitnis um stýrivexti og gengi krónu.

Í spánni segir að Greiningardeild Glitnis telur að þróun gengis krónunnar ráðist af aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eitthvað lengur. Krónan muni því eiga erfitt uppdráttar á næstunni, en Greining Glitnis spáir því að krónan styrkist síðari hluta árs, þegar alþjóðlegar markaðsaðstæður batna. Ekki er hins vegar hægt að tímasetja þær breytingar nákvæmlega, segir í spánni.

Greining Glitnis spáir því að Bandaríkjadalur verði í grennd við 77 krónur í lok þessa árs og tæpar 63 krónur í lok árs 2009. Reiknað er með því að evran verði nálægt 118 krónum í lok þessa árs og standi í tæpum 98 krónum í lok árs 2009.

Verðbólgan erfið viðureignar fyrir Seðlabankann

Að sögn Greiningardeildar Glitnis er Seðlabankanum vandi á höndum, þar sem verðbólgan (sem mældist 12,3% á ársgrundvelli í maí) skýrist af hækkun þeirra undirliða vísitölu neysluverðs sem háir stýrivextir bíta illa á. Verðbólguna má einkum rekja til gengislækkunar krónu og hækkunar hrávöruverðs á heimsmarkaði.

„Við spáum því að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli sitt í nóvember með 0,50 prósentustiga lækkun vaxta og að stýrivextir verði 15% í árslok. Þá reiknum við með örum vaxtalækkunum á næsta ári eftir því sem hjól efnahagslífsins fara að snúast hægar, einkaneysla dregst saman, bati verður á ytra jafnvægi þjóðarbúsins og dregur úr verðbólguþrýstingi, og að vextir standi í 8% í árslok 2009. Áður spáðum við að vaxtalækkunarferlið hæfist í september á þessu ári og að vextir yrðu komnir í 14,75% í lok árs,“ segir í verðbólguspá Glitnis.

Tekið er fram að Greining Glitnis telur að færa megi rök fyrir því að rétt væri að lækka vexti fyrr og hraðar en spáin gerir ráð fyrir. Hins vegar telur Greining Glitnis að Seðlabankinn líti þróunina öðrum augum og að vextir verði því líklega háir lengur en heppilegt væri og Seðlabankinn keyri hagkerfið með því niður í óþarflega mikla lægð.