Greiningardeild Glitnis hefur lækkað verðbólguspá sína fyrir júlímánuð. Áður spáði greining Glitnis 1,6% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í mánuðinum en birtir í dag endurskoðaða spá upp á 1,1% fyrir mánuðinn.

Í Morgunkorni Glitnis segir að verðbólguspáin hafi verið endurskoðuð vegna þess að gengi krónunnar var hærra í viðmiðunarviku Hagstofunnar en greiningardeildin hafði gert ráð fyrir auk þess sem heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði einnig í vikunni.

„Þá hafa bifreiðaumboðin ekki hækkað verð á nýjum bílum í eins miklum mæli og áætlað var. Þeir undirliðir sem stuðla að hækkun VNV í júlí samkvæmt spá okkar eru matur og drykkjarvörur, húsnæðisliður, húsgögn og heimilisbúnaður ásamt undirliðnum ferðir og flutningar. Á móti þessum undirliðum vegur að útsölur á fatnaði og skóm hafa talsverð áhrif til lækkunar VNV í mánuðinum,“ segir í Morgunkorni.

Gangi spá um 1,1% hækkun VNV í júlímánuði eftir jafngildir það 12,7% verðbólgu á ársgrundvelli.