Líklegt er að mánaðarsveifla ráði miklu um hversu smár afgangur af vöruskiptum reyndist í janúar, rétt eins og allt lagðist á eitt við að mynda metafganginn í desember.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis en afgangur af vöruskiptum reyndist sáralítill í janúar eftir metafgang í desember.

Eins og fram kom í morgun nam vöruútflutningur í nýliðnum mánuði 33,6 milljörðum króna en heildarverðmæti vöruinnflutnings var 33,3 milljarðar króna á sama tíma, og því 300 milljóna afgangur af vöruskiptum í mánuðinum samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

Til samanburðar var afgangurinn 24,2 milljarðar í desember síðastliðnum og hafði þá aldrei verið meiri.

Greining Glitnis telur þannig líklegt að afgangurinn verði töluvert meiri í febrúar, enda gengi krónu afar lágt og geysisnarpur samdráttur orðinn í innlendri eftirspurn.

„Einnig verður að hafa í huga að greiðsluflæði vegna vöruviðskipta er í talsvert öðrum takti en vöruskiptin sjálf þessa dagana og líklegt að myndarlegur afgangur síðustu mánaða hafi að verulegu leyti verið að skila sér inn á markað undanfarnar vikur,“ segir í Morgunkorni.

Sjá nánar Morgunkorn Glitnis.