Greining Glitnis spáir því að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum á fimmtudag, þegar fyrsta stýrivaxtaákvörðun bankans á nýju ári verður tilkynnt.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis en Greining Glitnis segir stýrivexti, sem nú eru 18% vera afar háa í sögulegu og alþjóðlegu ljósi.

„Háum vöxtum er ætlað að draga úr líkunum á útflæði fjármagns þegar opnað verður fyrir gjaldeyrisflæði vegna fjármagnsflutninga en höft hafa verið á þessu gjaldeyrisflæði frá hruni bankanna,“ segir í Morgunkorni.

„Áhrif stýrivaxtanna á innlenda eftirspurn og verðbólgu þar með eru mikil um þessar mundir þar sem lokast hefur fyrir erlent lánaflæði til landsins. Vextirnir leggjast því af fullum þunga á innlenda eftirspurn sem þegar er að dragast saman hratt vegna bankahrunsins og fleiri þátta. Verðbólgan er hins vegar mikil eða 18,1% og mun aukast enn í næstu mælingu sem birt verður á miðvikudaginn. Reiknum við með því að sú mæling sýni 18,7% verðbólgu.“

Þá segir Greining Glitnis að framundan sé flot krónunnar og Seðlabankinn vilji mæta því með mikinn mun innlendra og erlendra vaxta. Verðbólgan séu líka enn mikil og raunstýrivextirnir reiknaðir sem munurinn á verðbólgunni nú og stýrivöxtunum  neikvæðir.

„Verðbólguhorfur eru hins vegar viðunandi að því gefnu að krónan haldist stöðug eða styrkist. Verðbólgan samkvæmt okkar spá ætti að vera komin í markmið Seðlabankans á fyrri hluta árs 2010,“ segir í Morgunkorni.

Fyrsta stýrivaxtalækkunin um mitt árið

Þá spáir greiningardeildin því að stýrivextir bankans verði lækkaðir um mitt árið.

„Lækkun um 50 punkta er líklegt fyrsta skref í fremur hröðum vaxtalækkunarferli,“ segir í Morgunkorni.

„Reiknum við með því að stýrivextir bankans verði komnir niður í 11,5% í lok árs sem er 6,5 prósentustigum lægri vextir en þeir eru núna. Verðbólgan mun þá vera á miklu undanhaldi en spáum við því að hún verði komin niður í 3,6% í upphafi næsta árs.“

Sjá nánar Morgunkorn Glitnis.