„Við teljum sameiningu félaganna jákvæða fyrir bæði fyrirtækin, ekki síst SPRON sem hefur orðið mjög illa úti í lækkun hlutabréfamarkaða að undanförnu,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu í dag.

„Í ljósi þessa og versnandi efnahagsástands á Íslandi teljum við að fjármunum hluthafa SPRON verði betur borgið með sameiningu við Kaupþing. Sameining félaganna myndi einnig styrkja íslenskan fjármálamarkað,“ segir í Morgunkorni.

Þá segir Greining Glitnis segir að sameiningarviðræður milli Kaupþings og Spron verða væntanlega fyrsta stóra skrefið í samþættingu íslenskra fjármálafyrirtækja.

Einnig kemur fram í Morgunkorni að eitt helsta úrlausnarefnið sem bíður félaganna í sameiningarviðræðunum er að finna kaupendur að beinum og óbeinum eignarhlut SPRON í Exista, en gengi Exista hefur lækkað um rúm 60% undanfarna tólf mánuði.