Greiningadeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu að ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans að hækka vexti nú komi ekki á óvart þegar fráviksspá sem bankinn birti í nóvemberhefti Peningamála er skoðuð. Vaxtatilkynningin í dag var utan hinna skipulögðu vaxtaákvörðunardaga og var þannig nokkuð óvænt.

„Aðstæður á innlendum mörkuðum eru síst betri en lýst var í þeirri spá, en þar var m.a. gert ráð fyrir að gengi krónu myndi lækka um samtals 20% á fyrri helmingi ársins á sama tíma og vaxtaálag á erlendar skuldbindingar innlendra aðila myndi aukast um 1,5%. Slíkar aðstæður þóttu kalla á að vextir yrðu hækkaðir í 15% á 2. fjórðungi ársins og þeim haldið óbreyttum fram á seinni hluta ársins. Gengi krónunnar hefur lækkað um nálægt 23% frá áramótum og vaxtaálagið aukist langt umfram það sem gert var ráð fyrir í fráviksspánni,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Næstu stýrivaxtatilkynningar er að vænta 10. apríl næstkomandi samhliða birtingu nýrrar þjóðhags- og verðbólguspár sérfræðinga Seðlabankans og segir greiningadeildin nokkrar líkur á að stýrivextir verði hækkaðir frekar.