Eitt af því sem hefur verðið þyrnir í augum þeirra sem fylgst hafa með stöðu íslensks hagkerfis á síðustu misserum er hversu mikil skuldsetning þess er.

Einnig hefur viðskiptahallinn og það ytra ójafnvægi í íslensku hagkerfi sem hann endurspeglar verið áhyggjuefni.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Þar segir jafnframt að þær gífurlegu breytingar sem nú eiga sér stað á stærð og gerð íslensks fjármálakerfis munu hafa mikil áhrif þar á.

Í Morgunkorni kemur fram að viðskiptahallinn á fyrri helmingi ársins var tæp 27% af vergri landsframleiðslu (VLF) og um mitt ár var hrein erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 2.095 milljarðar króna sem samsvarar um 160% af VLF.

Þá segir Greining Glitnis að samsetning viðskiptajafnaðar hefur breyst mikið undanfarin ár, þar sem þáttatekjur, sér í lagi fjármagnstekjur og -gjöld, hafa leikið æ stærra hlutverk.

Þannig megi rekja þrjá fjórðu hluta viðskiptahallans á fyrri hluta ársins til halla á þáttatekjum, þ.e. í stórum dráttum munarins á fjármagnstekjum og gjöldum til og frá útlöndum.

Erlend staða þjóðarbúsins stokkuð upp

Greining Glitnis segir að þótt óljóst sé enn hver erlend staða þjóðarbúsins verður eftir þá uppstokkun sem nú á sér stað á íslensku fjármálakerfi er ljóst að hún mun breytast í grundvallaratriðum.

„Um það bil 85% af erlendum skuldum þjóðarbúsins um mitt ár voru skuldir innlánsstofnana,“ segir í Morgunkorni.

„Mikill hluti þessara skulda mun nú þurrkast út, og á móti munu erlendar eignir þjóðarbúsins skreppa mikið saman. Hlutur þáttatekjujafnaðar í þróun viðskiptajafnaðar mun væntanlega minnka að sama skapi. Þar sem gengi krónu er nú mjög lágt og ekki er fyrirséð að krónan nái fyrri styrk sínum á komandi misserum má búast við jafnvægi, eða jafnvel nokkrum afgangi, á vöruskiptum og þjónustuviðskiptum. Því er ekki ólíklegt að viðskiptahallinn, yfir heildina tekið, muni verða lítill á komandi mánuðum og misserum. Þó kann að vera að nokkur þáttatekjuhalli verði á næstunni, og veltur það ekki síst á því hve umfangsmikil erlend lántaka ríkissjóðs vegna fjármálakreppunnar verður á endanum.“

Sársaukafull snögghemlun

Greining Glitnis segir í Morgunkorni að í raun má heimfæra þróunina á Íslandi upp á fyrirbæri sem nefnt hefur verið snögghemlun (e. sudden stop).

Í því felst að land, þar sem viðskiptahalli hefur verið fjármagnaður með innflæði af erlendu fjármagni, stendur frammi fyrir því að hin erlenda fjármögnun þornar upp, og jafnvel verður útflæði af erlendu fjármagni.

Í kjölfarið er viðskiptajöfnuðurinn nánast neyddur í jafnvægi, sem getur valdið talsverðum harðindum.

Sér í lagi getur aðlögunin reynst sársaukafull ef skammtímafjármagn hefur verið verulegur þáttur hinnar erlendu fjármögnunar og einkaneysla er ráðandi í innlendri eftirspurn, líkt og raunin hefur verið hér á landi.

„Hið jákvæða við stöðuna er hins vegar að þegar unnið hefur verið úr áfallinu sem skapast af snögghemluninni stendur hagkerfið eftir í betra jafnvægi en áður,“ segir Greining Glitnis.