Greiningadeild Glitnis spáir 0,5% stýrivaxtahækkun í apríl en næsti vaxtaákvörðunardagur bankans er 10. apríl næstkomandi.

„Þá teljum við að vöxtum verði haldið óbreyttum í 15,5% fram á þriðja ársfjórðung til að ná niður tímabundnum verðbólguþrýstingi og veita verðbólguvæntingum traust akkeri. Við spáum því að því stýrivaxtahækkunarferli sem hófst á vormánuðum ársins 2004 ljúki þar með og að bankinn hefji lækkunarferli vaxta sinna á þriðja fjórðungi ársins þegar skýrar vísbendingar eru komnar fram um betra jafnvægi hagkerfisins, að hægja sé farið á innlendri eftirspurn og verulega hafi dregið úr verðbólguþrýstingi,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Þá segir ennfremur:  „Við teljum að bankinn ríði á vaðið í september og lækki þá vexti sína um 0,50 prósentustig og að vextir verði komnir í 14,5% í árslok. Þá spáum við því að vextir verði lækkaðir ört á árinu 2009, að verðbólgumarkmið bankans náist um mitt árið og að vextir verði 8,0% í lok þess árs. Áður spáðum við því að vextir væru komnir í 11,5% í lok þessa árs og 7,0% í árslok 2009.“