Greiningardeild Glitnis gerir ráð fyrir 6% lækkun íbúðaverðs á þessu ári í stað 7% eins og í fyrri spá.

Ástæður þess að greiningardeildin breytir fyrri spá sinni eru breytingar á ytri umgjörð markaðarins að undanförnu. Niðurfelling stimpilgjalda af kaupum á fyrstu íbúð, sem tók gildi 1. júlí sl., og aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn kólnun á fasteignamarkaði, þ.e. 30 milljarða fjárveiting til lánveitinga, spila sinn þátt þar.

Væntingar neytenda um efnahagsástandið eru hins vegar í sögulegu lágmarki, hægt hefur verulega á einkaneyslu, kaupmáttur launa hefur dregist saman og útlit er fyrir aukið atvinnuleysi á seinni hluta ársins. Þá spilar brottflutningur erlends vinnuafls úr landi og mikið framboð af nýju húsnæði á sinn þátt í að auka þrýsting til verðlækkunar á íbúðarmarkaði.

„Þá virðist sem sú raunverðslækkun íbúðahúsnæðis sem við spáðum ætli að verða meiri fyrir tilstilli verðbólgu en nafnverðslækkun íbúðahúsnæðis en verðbólguhorfur hafa versnað nokkuð eftir því sem liðið hefur á árið. Reyndar bendir flest til að sú leiðrétting sem mun eiga sér stað á íbúðarmarkaði í þessari niðursveiflu verði að mestu í gegnum mikla verðbólgu fremur en nafnverðslækkun íbúðahúsnæðis. Engu að síður er um talsverða nafnverðslækkun að ræða, enda er fátt sem styður við íbúðarmarkaðinn um þessar mundir,“ segir í Morgunkorni Glitnis.