Greining Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,9% milli apríl og maí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga vera óbreytt milli mánaða, 11,8%.

„Búast má við að áhrifa vegna gengislækkunar krónunnar muni enn gæta í maí þó svo að stærsti kúfurinn sé liðinn hjá. Þar er helst um að ræða verðhækkun vöru sem hefur hægan veltuhraða en tiltölulega lítill kostnaðarþrýstingur er eftir á innfluttum vörum með hraðari veltuhraða,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Þá segir Greining Glitnis að eldsneytisverðshækkun haldi áfram og áhrif þess verði nokkur í maí. „Innlendur kostnaðarþrýstingur er einnig enn til staðar. Margt bendir til þess að enn sé nokkur verðþrýstingur á matvörumarkaði sem enn hefur ekki skilað sér út í verðlag og nægir að nefna verð á mjólk og mjólkurvörum í því sambandi,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

Þá býst greiningadeildin við því að samdráttur á húsnæðismarkaði muni leiða til lítilsháttar verðlækkunar nafnverðs húsnæðis á árinu.

„Sú lækkun sem við eigum von á er þó aðeins brot af þeirri hækkun sem átti sér stað á síðasta ári. Við teljum líklegt að húsnæðisverð eins og Hagstofan mælir það muni lækka lítillega í maí og að markaðsverð húsnæðis lækki um tæplega 4% yfir árið og að lítilleg lækkun verði einnig á árinu 2009,“ segir í Morgunkorni.