Greining Glitnis hefur gefið út nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2007 - 2010. Þar kemur fram að þeir telja að lítilsháttar samdráttur verði í landsframleiðslu á þessu ári eða 0,2% á föstu verði. Þeir spá því að Seðlabankinn nái 2,5% verðbólgumarkmiði sínu á árinu og að samhliða muni hann slaka á aðhaldinu í peningamálum og lækka vexti sína fyrir árslok niður í 11,5%.

"Hagþróunin í ár verður eins konar spegilmynd síðustu ára þar sem draga mun snarpt úr innlendri eftirspurn en viðsnúningur í utanríkisviðskiptum vegur á móti. Þetta endurspeglar sókn hagkerfisins að jafnvægi eftir tímabil þar sem vöxtur innlendrar eftirspurnar hefur verið mjög hraður, halli á utanríkisviðskiptum sívaxandi og spenna í hagkerfinu hefur aukist með mikilli verðbólgu," segir Greining Glitnis.

Í þjóðhagsspá sinni benda þeir á að mikill viðskiptahalli hefur verið ein skýrasta birtingarmynd ójafnvægisins að undanförnu í hinu íslenska hagkerfi, enda fátítt meðal þróaðra ríkja að viðskiptahallinn fari yfir fjórðung af vergri landsframleiðslu líkt og raunin var hér á landi í fyrra. Þeir spá því að verulega muni draga úr viðskiptahallanum á þessu ári með lægra fjárfestingarstigi í hagkerfinu, vaxandi þjóðhagslegum sparnaði, auknum útflutningi og samdrætti í innflutningi. Viðskiptahallinn verður ríflega 16% af landsframleiðslu á yfirstandandi ári að þeirra mati og á næsta ári verður hann tæplega 8%, innan við þriðjungur af halla síðasta árs.