Þó talsverður árangur geti náðst við að bankarnir, ríkið og Seðlabanki leggist á eitt við að bæta ástandið mun Íslandsálagið án efa ekki hverfa að fullu nema með kerfisbreytingu.

Styrking gjaldeyrisforða er góð viðleitni til að efla Seðlabankann sem trúverðugan lánveitanda til þrautavara en er ekki langvarandi lausn fyrir hagkerfi sem vill bjóða fjölþjóðlegum bönkum samkeppnishæft starfsumhverfi.

Á meðan myntkerfið er jafn lítið og raun ber vitni mun því fylgja kerfisáhætta sem kemur niður á alþjóðlegri samkeppnishæfni banka sem hefðu höfuðstöðvar á Íslandi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis þar sem Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis fjallar um stöðuna á íslenskum fjármálamörkuðum í dag.

Tvær leiðir um að velja

Ingólfur segir leiðirnar til að losa fjármálakerfið við Íslandsálagið til langs tíma vera líklega helst tvær:

Annars vegar er hægt að stækka myntkerfið, þ.e. að gerast þátttakandi í stærra myntsvæði sem skapaði bönkunum trúverðugan bakhjarl. Evran er þar líklega besti kosturinn m.a. vegna vægi þeirrar myntar í utanríkisviðskiptum,  þó að sú leið sé seinfarin.

Hin leiðin er uppgjöf við að byggja upp alþjóðlega bankastarfsemi hér á landi og að bankarnir finni sér þá annan bakhjarl en Seðlabanka Íslands með því að flytja höfuðstöðvar sínar af landi brott.

Sterk staða bankanna en blikur á lofti

Í skrifum Ingólfs kemur fram að eiginfjárstaða, arðsemi og lausafjárstaða bankanna er viðunandi og að þeir eru ágætlega í stakk búnir að takast á við vaxandi vanskil og útlánatöp, frekari lækkun á hlutabréfum og markaðsskuldabréfum, lækkun krónunnar og aðra mögulega fylgifiska áframhaldandi óróa á fjármálamörkuðum.

Seðlabankinn hafi fylgst náið með fjárhagslegri stöðu bankanna og þeir hafi nýlega staðist álagspróf Fjármálaeftirlitsins.

Þó kemur fram að erlend markaðsfjármögnun er stór hluti af fjármögnun íslensku bankanna.

„Þetta hefur gert þá viðkvæmari fyrir þeirri alþjóðlegu lánsfjárkrísu sem ríkt hefur undanfarið,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

„Uppgjör bankanna  bera það glögglega með sér að þeir hafa brugðist skjótt við þessari ógn með því að efla varnir sínar gegn bankaáföllum. Þeir hafa m.a. bætt grunnrekstur sinn, haldið lausfjárstöðu sterkri og eiginfjárhluthlutföllum háum. Þeir hafa aukið innlán, dregið úr kostnaði og hægt á vexti útlána. Þá hafa þeir nýtt einkaútgáfur og verðbréfum til fjármögnunar.“

Þá er tekið fram að þrátt fyrir þetta átak bankanna eru erlendir lánamarkaðir bönkunum enn erfiðir. Þannig sé skuldatryggingaálag bankanna mjög hátt þó svo að álagið hafi lækkað aðeins frá því sem það var hæðst og ljóst að markaðurinn telji bankanna vera þannig á réttri leið er líklegt að erlendir lánamarkaðir verði bönkunum erfiðir vel fram á næsta ár eða á meðan lánsfjárkrísan varir á erlendum mörkuðum.

Betra jafnvægi að skapast

Í Morgunkorni segir að þenslan hefur verið einn orsakaþáttur Íslandsálagsins og í leiðinni einn helsti veikleiki íslenska hagkerfisins undanfarið. Mikill viðskiptahalli með samsvarandi erlendri skuldasöfnun hafi verið þyrnir í augum allra sem hafa haft auga með fjármálastöðugleika hér á landi.

„Það er því afar mikilvægt að ná hagkerfinu í jafnvægi á ný,“ segir í Morgunkorni.

„Með hratt minnkandi innlendri eftirspurn og vaxandi útflutningi er nú að skapast betra jafnvægi hagkerfisins. Viðskiptahallinn er að minka hratt og verðbólgan ætti að hjaðna ört á næstu mánuðum þegar áhrif gengislækkunar krónunnar undanfarna mánuði á verðlag eru liðin hjá. Með hjöðnun verðbólgunnar skapast svigrúm fyrir Seðlabankann að lækka vexti sína niður að mörkum sem samrýmast betur jafnvægi.“