Verðbólga í apríl mældist 11,8% á ársgrundvelli og hefur ekki verið meiri í tvo áratugi. Greining Glitnis spáir í Morgunkorni sínu að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 0,25 prósentustig til viðbótar, í 15,75%, á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans þann 22. maí næstkomandi.

„Þá er útlit fyrir að Seðlabankinn hafi vanmetið verðbólgu á öðrum fjórðungi ársins um 1,5 til 2 prósentustig í þjóðhagsspá bankans sem birt var samfara síðustu vaxtatilkynningu 10. apríl. Við teljum því að Seðlabankinn muni hækka vexti á næsta fundi sínum til að veita verðbólguvæntingum trausta kjölfestu og varna enn frekari hækkun verðlags,“ segir í Morgunkorni.

Þá gerir Greining Glitnis jafnframt ráð fyrir að sú stýrivaxtahækkun marki endalok vaxtahækkunarferlis bankans sem staðið hefur yfir í fjögur ár.

Greining Glitnis segir vísbendingar þegar vera komnar fram um að farið sé að hægja á vexti innlendrar eftirspurnar, bæði einkaneyslu og fjárfestingu heimila sem fyrirtækja. Hægt hafi á ársvexti greiðslukortaveltu, innflutningur bifreiða og varanlegra neysluvara fari nú hjaðnandi, kaupmáttur launa hafi dregist saman og tiltrú neytenda á núverandi efnahagsástand hafi minnkað.

Þá ríki nánast verðstöðnun á fasteignamarkaði og velta á honum hafi dregist mikið saman auk þess sem nýjum íbúðalánum hafi fækkað mikið á milli ára.

Vaxtalækkunarferlið hefst í september

„Við búumst við að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli sitt í september þegar skýr merki eru komin fram um kólnun hagkerfisins og að farið sé að draga úr verðbólguþrýstingi. Spáum við að stýrivextir verði 14,75% í lok þessa árs,“ segir í Morgunkorni.

Þá reiknar Greining Glitnis með því að vextir verði lækkaðir hratt á næsta ári eftir því sem dregur úr verðbólguþrýstingi og hjól efnahagslífsins fara að snúast að nýju.

Greining Glitnis spáir að verðbólgumarkmið bankans náist um mitt árið og að vextir standi í 8% í árslok 2009. Áður spáði Greining Glitnis að vextir yrðu 14,5% í lok þessa árs og 8% í lok þess næsta.