Greining Glitnis segir mikla óvissu vera um þróun langtímavaxta á næstu vikum og mánuðum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

„Ljóst er að mikið framboð verður af verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð á næstunni vegna endurfjármögnunar íbúðalána bankanna,“ segir í Morgunkorni.

„Á móti er sókn sparifjáreigenda í skjól ríkistryggingar og verðtryggðra eigna um þessar mundir veruleg þar sem verðbólgan framundan er talsverð og óvissa mikil í öðrum fjárfestingarkostum.“

Greining Glitnis segir stöðuna á gjaldeyrismarkaði auka enn óvissuna þar sem  það fyrirkomulag sem nú er við lýði hamlar verulega gjaldeyrisviðskiptum og aðkomu erlendra aðila að innlendum skuldabréfamarkaði.

Þá segir greiningardeildin að vegna óvissu  á gjaldeyrismarkaði er allskostar óvíst með hvaða hætti núverandi eign erlendra aðila á innlendum skuldabréfamarkaði þróast. Þá ríki einnig mikil óvissa um hvernig verðbólguþróun verður á næstunni.

Mikil aukning á framboðshliðinni

„Ef litið er nánar á framboðshlið skuldabréfamarkaðarins á næstunni má áætla að útgáfa Íbúðalánasjóðs á verðtryggðum skuldabréfum vegna endurfjármögnunar á íbúðalánum bankanna muni nema um 400 milljörðum króna,“ segir jafnframt í Morgunkorni.

Þá segir Greining Glitnis að þessu til viðbótar má ætla að halli verði á ríkissjóði á næsta ári upp á um 100 milljarða króna.

„Rétt er að undirstrika að varðandi hallareksturinn er verið að ræða um allt næsta ár,“ segir Greining Glitnis.

„Á móti kemur að handbært fé ríkissjóðs er nú verulegt og mun ríkissjóður ganga á gildar innistæður sínar í Seðlabanka áður en farið verður að fjármagna hallarekstur með ríkisbréfaútgáfu.“ Þá spáir greiningardeildin því að heildarútgáfa á ríkistryggðum skuldabréfum þegar litið er til loka næsta árs gæti því orðið um 400 milljarðar króna.

Það sé veruleg viðbót við það sem fyrir er í flokkum Íbúðabréfa (HFF) þ.e. verðtryggðra skuldabréfa voru um síðustu mánaðarmót 512 milljörðum króna.

„Þannig verður aukning á útistandandi verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð um nær helming,“ segir í Morgunkorni.

Hverjir munu kaupa?

Greining Glitnis segir að ef litið sé á eftirspurnarhlið markaðarins á næstunni er stærsta spurningin hvaða kaupendur verða helst að verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð á næstunni.

Ljóst sé að sparifé landsmanna er aðallega í húsnæði, lífeyrissjóðum, óskráðum eignum í fyrirtækjum og skuldabréfum og þá aðallega verðtryggðum.

„Ólíklegt er að erlendir aðilar verði hreinir kaupendur að íslenskum verðtryggðum skuldabréfum á næstunni,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

„Lífeyrissjóðirnir hafa löngum reynst dyggir kaupendur íbúðabréfa, en kaupgetu þeirra eru nokkur takmörk sett nú um stundir og einnig má gera ráð fyrir á þeir veigri sér við að kaupa verðtryggð skuldabréf á lægri kröfu en þeim 3,5% sem liggur til grundvallar í tryggingafræðilegu mati á stöðu þeirra.Ólíklegt er að eftirspurn á skuldabréfamarkaði verði nægjanlega mikil til að halda vöxtum frá því að hækka nokkuð á næstunni, sér í lagi þegar mánaðartaktur verðbólgu tekur að hjaðna. Hröð lækkun stýrivaxta mun tæpast ná að vega upp áhrif af miklu framboði verðtryggðra bréfa.“