Greiningardeild Glitnis telur að íslenska krónan muni eiga undir högg að sækja út þetta ár. Í Morgunkorni segir að takmarkað aðgengi íslenskra fjármálastofnana að erlendu lánsfé hafi gert það að verkum að vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaði hefr verið skertur og hefur það torveldað fjárfestum að nýta sér hátt vaxtastig hér á landi. Auk þess hafi skuldatryggingarálag íslensku viðskiptabankanna hækkað og áhættulyst fjárfesta er lítil.

„Vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaði hefur heldur verið að aukast síðustu vikur á ný á stystu samningunum og styður það við gengi krónu til skamms tíma að okkar viti. Því reiknum við með sterkari krónu framan af spátímans en í spá þeirri sem við birtum í lok júní. Við teljum þó að krónan muni áfram eiga undir högg að sækja út árið af ofangreindum ástæðum, og að raungengið verði undir langtímajafnvægisgildi sínu enn um sinn. Þá spilar einnig inn í að stórir krónubréfagjalddagar eru handan við hornið,“ segir í Morgunkorni.

Gengisvísitalan verður um 158 stig um áramótin, gangi spá greiningar Glitnis eftir. Þá kostar evran um 123 krónur og Bandaríkjadalur 79 krónur. Greining Glitnis spáir því að gengisvísitalan verði í kringum 130 stig í lok árs 2009, en hafði áður reiknað með að hún yrði nálægt 126 stigum í árslok 2009.