Greining Íslandsbanka spáir 0,9% hagvexti á næsta ári og verður knúinn áfram af aukinni neyslu, fjárfestingu og útflutningi. „Lágt raungengi og aukinn hagvöxtur á heimsvísu hjálpar útflutningnum á meðan aukin erlend fjárfesting hér á landi, vaxandi kaupmáttur og lægri vextir hvetja innlenda eftirspurn. Lítill vöxtur verður að öllum líkingum í öllum þessum liðum og viðsnúningurinn vart sýnilegur svo neinu nemur fyrr en á árinu 2012, en við spáum 2,9% hagvexti það ár og 3,3% hagvexti 2013,“ segir í þjóðhagsspá bankans sem kom út í dag.

Segir að reikna megi með að hagkerfið finni botn kreppunnar á næstu mánuðum og að við taki hægfara bati. „Skilyrði fyrir vexti hafa skapast að nýju eftir mikla leiðréttingu í eigna, skulda, tekju og gjaldahlið þjóðarbúsins. Ólíklegt er að viðsnúningurinn verði hraður sökum margra kerfislægra vandamála sem enn eru til staðar. Má þar nefna skuldavanda fyrirtækja, heimila og hins opinbera, skort á virkum fjármálamarkaði og trausti. Afleiðingar fjármálakreppunnar munu því lita efnahagsþróunina talsvert fram yfir þann tímapunkt þegar botni kreppunnar er náð,“ segir í spánni.

„Eftir að samdrátturinn í einkaneyslu sem staðið hafði yfir frá 2008 virtist ætla að taka enda um mitt þetta ár hefur viðvarandi óvissa um skuldastöðu heimilanna tafið viðsnúninginn a.m.k. tímabundið. Vaxandi kaupmáttur, lækkun vaxta, bætt staða vinnumarkaðarins auk hækkunar eignaverðs skapar skilyrði fyrir aukningu einkaneyslu þegar líða tekur á næsta ár. Viðbúið er að vöxturinn verði hægur og að hann byggist minna á skuldsettum vexti og eignaverðshækkunum en hefur verið raunin í mörgum öðrum uppsveiflum í íslensku efnahagslífi. Reiknum við með því að einkaneyslan vaxi um 2,5% á næsta ári, kaupmáttur launa um 0,1% og að atvinnuleysi lækki úr 8,1% á þessu ári niður í 7,5% á næsta ári. Einnig reiknum við með 0,8% raunverðshækkun íbúðarhúsnæðis.

Fjárfestingarstigið í hagkerfinu er afar lágt um þessar mundir en vel þekkt er að það sé lágt um hríð eftir að hagkerfi hafa orðið fyrir gjaldeyris- og bankakreppu. Mikil skuldsetning, hægur vöxtur innlendrar eftirspurnar, seinagangur í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og heimila sem og höft á gjaldeyrismarkaði draga úr vaxtamöguleikum á þessu sviði efnahagslífsins á næstunni. Fjárfestingarstig sem er talsvert yfir núverandi stigi er nauðsynlegt til að halda hagvexti viðunandi litið til lengri tíma. Reiknum við með því að fjárfesting vaxi um 4,4% á næsta ári, aðallega vegna fjárfestinga í stóriðju og tengdri starfsemi. Þegar kemur fram á árið 2013 reiknum við hins vegar með hagstæðari skilyrðum og að fjárfesting taki öll við sér, þ.e. fjárfesting atvinnuveganna, heimilanna og hins opinbera.

Mikill viðsnúningur hefur verið í ytri jöfnuði þjóðarbúsins frá hruni bankakerfisins 2008 þar sem afgangur af utanríkisviðskiptum hefur tekið við af miklum halla. Reiknum við með því að afgangur verði af viðskiptum við útlönd á næsta ári sem nemur ríflega 5% af landsframleiðslu en að öllu minni afgangur verði 2012 vegna viðsnúnings í fjárfestingu og neyslu í hagkerfinu sem kallar á aukinn innflutning. Mun þessi afgangur auk hafta á fjármagnsflutninga, minnkandi áhættuálags á íslenskar fjáreignir og munar á innlendum og erlendum vöxtum styðja við gengi krónunnar næstu misserin. Raungengi krónunnar er lágt um þessar mundir og reiknum við með því að það hækki aðeins á næstunni með hækkandi nafngengi, og viðbúið er að verðbólgan verði hér skapleg næstu misserin og í nálægð við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Að okkar mati munu verða höft á fjármagnsflutninga nokkuð fram yfir næsta ár en yfirlýst markmið stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að afnema höftin á tíma efnahagsáætlunar þessara aðila sem nú er ráð fyrir gert að endi í ágúst á næsta ári. Við reiknum með framlengingu á tímaramma þeirrar áætlunar.“

Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka .