Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,7% í september. Ef spá greiningardeildarinnar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka lítillega, úr 10,9% í 10,7%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en Greining Íslandsbanka segir að áhrif útsöluloka verði talsverð í septembermælingu VNV og vega í heild til 0,5% hækkunar.

Þá komi áhrif af álagningu vörugjalda á ýmsa flokka matvörur fram í september og vega til 0,2% hækkunar á VNV.

Hófleg hækkun VNV út árið

„Að því gefnu að gengi krónunnar gefi ekki verulega eftir á næstunni mun draga allhratt úr hækkunartakti VNV það sem eftir lifir árs og þar með verðbólgunni,“ segir í Morgunkorni.

„Gerum við ráð fyrir 1,5% hækkun VNV til áramóta, að september meðtöldum. Á sama tíma detta miklir hækkunarmánuðir út úr 12 mánaða takti verðbólgunnar og mun hún því hjaðna hratt á þann mælikvarða. Ef spá okkar gengur eftir verður verðbólga komin undir 6% í árslok.“

Sjá nánar í Morgunkorni.