Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,4% í maí. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka úr 11,9% í 10,8%.

„Að mati okkar mun hækkandi eldsneytisverð og annar kostnaður tengdur bifreiðum reynast drýgsti hækkunarvaldur VNV að þessu sinni,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

„Einnig mun að okkar mati gæta áhrifa lækkunar krónu í þeim vöruflokkum sem hafa hægastan veltuhraða og/eða árstíðatengt vöruframboð. Má þar nefna föt og skó, heimilisbúnað og tómstundavörur.“

Á móti gerir greiningardeildin ráð fyrir lækkun húsnæðisliðar vísitölunnar vegna lækkandi markaðsverðs á íbúðarhúsnæði.

„Þótt hækkun VNV kunni að reynast töluvert meiri á öðrum ársfjórðungi en raunin var á fyrstu mánuðum ársins teljum við að 12 mánaða verðbólga mun hjaðna hratt eftir því sem á árið líður og gæti verðbólga reynst í námunda við markmið Seðlabankans í árslok,“ segir í Morgunkorni.

Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka.