Ekki verður boðið upp á óverðtryggð ríkisbréf í ríkisbréfaútboði Lánamála ríkisins á föstudaginn en í boði verður verðtryggði ríkisbréfaflokkurinn RIKS 21 0414 og líkt og í undanfarið ræður lægsta samþykkta verð (og þar með hæsta ávöxtunarkrafa) söluverðinu.

Greining Íslandsbanka segir nokkuð athyglisvert að ekki sé boðið upp á óverðtryggða flokka í ljósi þess hversu hagstæða fjármögnun ríkissjóður gæti tryggt sér þessa dagana með slíkri útgáfu þar sem krafa ríkisbréfa er almennt sú lægsta um árabil.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun. Greining Íslandsbanka segir þó að skoða verði ákvörðunina í ljósi þessa að útgáfa óverðtryggðra ríkisbréfa hafi verið býsna myndarleg það sem af er ári. Þannig hefur ríkissjóður nú gefið út ríflega 45 milljarða króna í RIKB11 og RIKB25 af þeim 50 milljörðum króna sem ráðgert er að gefa út í þeim flokkum á árinu miðað við fyrirliggjandi útgáfuáætlun.

Sjá nánar í Morgunkorni.