Ríkissjóður getur vel unað við niðurstöðu nýlegs ríkisbréfaútboðs enda fjármagnaði hann sig þar á bestu kjörum sem sjóðurinn hefur notið til meðallangs tíma.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka þar sem fjallað er um skuldabréfaútboð hjá Lánamálum ríkisins sem fram fór á föstudag.

Fram kemur að eftirspurn í útboðinu hafi reyndar verið fremur hófleg, en í RIKB12 bárust tilboð fyrir 7,9 milljarða króna að nafnverði og í RIKS21 bárust tilboð fyrir 5,9 milljarða króna að nafnverði.

Í fyrrnefnda flokknum tók ríkissjóður tilboðum fyrir 7,1 milljarða króna að nafnverði á 4,10% nafnávöxtunarkröfu, en í þeim síðarnefnda var tilboðum tekið fyrir 5,8 milljarða á 2,52% raunávöxtunarkröfu.

„Líklega hefur fáa rennt í grun í upphafi árs að ávöxtunarkrafa á markaði yrði komin á núverandi slóðir þegar kæmi fram á haustið eftir linnulitla kröfulækkun allt árið,“ segir í Morgunkorni.

„Ávöxtunarkrafa bæði óverðtryggðra og verðtryggðra bréfa er nú í gildum sem kunnugleg eru frá öðrum löndum en þykja væntanlega mörgum framandi hér á landi. Það er til að mynda ekki nema mánuður síðan krafa RIKS21-bréfanna var yfir þeim 3,5% raunkröfumörkum sem tryggingarfræðilegir uppgjörsstaðlar setja lífeyrissjóðunum.“