Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem verður 21. Ágúst næstkomandi. Meginforsenda spárinnar er að gengi krónunnar hefur styrkst frá síðustu vaxtaákvörðun og komnar eru fram vísbendingar um að hagvöxtur hafi verið hægur á fyrri hluta ársins.

Greining Íslandsbanka segir að tölurnar bendi til þess að hagvöxturinn á árinu í það heila verði hægari en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í sinni síðustu spá, en bankinn muni samhliða vaxtaákvörðuninni nú birta bæði nýja hagvaxtar- og verðbólguspá. Bæði sterkari króna og hægari hagvöxtur en reiknað var með hafi bætt verðbólguhorfur.

Greining Íslandsbanka bendir á að verðbólgan hafi aukist frá síðustu vaxtaákvörðun og útlit sé fyrir að verðbólgan verði talsvert yfir verðbólguspá Seðlabankans út þetta ár. Þá séu líkur á að aðhaldið í opinberum rekstri verði minna í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir. Einnig séu kjarasamningar á döfinni næsta vetur sem meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans hafi áhyggjur af að verði landað á nótum sem samrýmist ekki verðbólgumarkmiðinu.

Greining reiknar með því að peningastefnunefndin haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta árið samhliða frekar þrálátri verðbólgu. Á næsta ári er hins vegar reiknað með frekari stýrivaxtahækkunum og að verðbólgan verði þá talsvert meiri en Seðlabankinn hafi gert ráð fyrir. Spáir Greining því að vextir af lánum gegn veði til 7 daga hjá bankanum, svokallaðir stýrivextir, verði 6,3% að meðaltali á næsta ári samanborið við 6,0% í ár.