Talsverðar líkur eru á að hlutur verðtryggðra skuldabréfa á íslenskum skuldabréfamarkaði geti minnkað verulega á næstu árum og vegur óverðtryggðra langtímabréfa aukist að sama skapi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en Greining Íslandsbanka segir það þetta myndi þýða mikla breytingu frá því sem var fyrir örfáum misserum þegar verðtryggð íbúðabréf réðu lögum og lofum meðal langtíma skuldabréfa með ríkisábyrgð.

Þá segir greiningardeildin að línurnar hafi skýrst nokkuð varðandi framboð ríkisbréfa á yfirstandandi ári. Í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum í janúarlok hafi komið fram að hrein útgáfa ríkisbréfa er áætluð 74 milljarðar króna á árinu.

„Raunar teljum við fremur líkur á því að fjármögnunarþörf ríkissjóðs, og þar með hrein útgáfa ríkisbréfa, reynist meiri en áætlun Seðlabanka hljóðar upp á en að hún verði minni,“ segir Greining Íslandsbanka.

Sjá nánar í Morgunkorni.