Í Morgunkorni sínu veltur Greining Íslandsbanka fyrir sér möguleikum á greiðslufalli ríkissjóðs. Þar er bent á að líkur á því að ríkissjóður lendi í greiðslufalli séu afar háðar því hvernig endurgreiðsluferill skuldbindinga sjóðsins er og hvert aðgengi sjóðsins er að fjármagni á hverjum tíma. Ríkissjóður hefur gott aðgengi að fjármagni í krónum til að mæta afborgunum sinna lána í krónum. Litlar áhyggjur þarf að hafa af því segir greiningardeildin.

Erfiðara er með aðgengi að erlendu fjármagni um þessar mundir en segja má að erlendir lánamarkaðir séu sjóðnum nær lokaður. Því skiptir mestu máli þegar líkur á greiðslufalli ríkissjóðs eru metnar hver endurgreiðsluferill erlendra lána sjóðsins er og hvaða aðgengi að erlendu fjármagni hann hefur á móti.

Gjaldeyrisforðinn dugar fyrir erlendum lánum

Ríkið þarf nær ekkert að greiða af erlendum lánum fyrr en á árinu 2011 en þá fellur í gjalddaga 1 ma. evra skuldabréf sem ríkissjóður gaf út árið 2006 til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Í gjaldeyrisforða Seðlabankans um síðustu mánaðamót voru 434 ma.kr. en forðinn er í erlendri mynt og samsvarar um 2,36 mö. evra. Í forðanum er ofangreint lán og fjármagnið því aðgengilegt ríkissjóði þegar að gjalddaga kemur ef Seðlabankinn nýtir það ekki í millitíðinni til inngripa á gjaldeyrismarkaði. Í forðanum er raunar til fyrir öllum núverandi erlendum skuldum ríkissjóðs, en þær skuldir að frátöldum ábyrgðum vegna Icesave voru 320 ma.kr. um síðustu mánaðamót.