Krafa ríkisbréfa hafði um hádegisbilið hækkað um 25 - 70 punkta frá opnun markaða í gær en frá júníbyrjun hefur syrt talsvert í álinn hvað varðar ávöxtunarkröfu ríkisbréfa, ekki síst lengri flokkanna.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en þannig hefur ávöxtunarkrafa RIKB 13 hefur hækkað um 1,6 prósentustig frá júníbyrjun og á RIKB 19 nemur hækkunin 1,7 prósentustigum.

Í Morgunkorni er skotið föstum skotum á peningastefnunefnd Seðlabankans en Greining Íslandsbanka segir að ákvörðun nefndarinnar um óbreytta stýrivexti í gær og „sá harði tónn sem henni fylgdi“ hafi haft veruleg áhrif á skuldabréfamarkaði í gær.

„Í kynningu sinni á vaxtaákvörðuninni minntist [Seðla]bankinn ekki einu orði á mögulega vaxtalækkun á komandi mánuðum en lét þess hins vegar getið að hugsanlega yrðu vextir hækkaðir ef afléttingu gjaldeyrishafta fylgdu veruleg áhrif á gengi krónu á komandi mánuðum,“ segir í Morgunkorni.

Þá segir Greining Íslandsbanka að tónn Seðlabankans í gær sé gjörbreyttur frá vaxtaákvörðuninni í fyrstu viku maímánaðar, en í yfirlýsingu Peningastefnunefndar þá sagði „verði gengisþróun krónunnar og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og nú er gert ráð fyrir, væntir peningastefnunefndin þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní, enda verði þá komin til framkvæmda fleiri skref í efnahagsáætluninni. Eftir það gerir nefndin ráð fyrir hægari lækkun stýrivaxta.“

Greining Íslandsbanka segir markaði hafa tekið þessum orðum fagnandi, og ávöxtunarkrafa styttri ríkisbréfaflokkanna hefði lækkað um ríflega eitt prósentustig á tveimur dögum.

„Merkilegt nokk notaði Seðlabankinn í næstu vaxtaákvörðun m.a. þau rök fyrir lítilli vaxtalækkun að markaðsvextir hefðu lækkað verulega í maí. Þó mátti ljóst vera að sú lækkun markaðsvaxta var að mestu leyti til komin vegna orða bankans sjálfs í maíbyrjun um líkur á ríflegri vaxtalækkun á fyrri hluta sumars,“ segir í Morgunkorni.

Sjá nánar í Morgunkorni.