Í takt við það árferði sem hér hefur ríkt hafa launahækkanir því verið afar litlar síðasta árið, sér í lagi ef tekið er mið af því sem áður var þegar atvinnumarkaðurinn einkenndist af mikilli þenslu og launaskriði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en í desember síðastliðnum hækkuðu laun um 0,3% frá fyrri mánuði og tólf mánaða hækkunin var einungis um 3,6%. Til samanburðar má nefna að í desember 2008 nam tólf mánaða hækkun launa 8,3%. Það var Hagstofa Íslands sem birti mánaðarlegu launavísitöluna fyrir desember 2009 nú í morgun.

Greining Íslandsbanka segir að á sama tíma og launhækkanir hafa verið afar litlar hafi verðbólga verið mikil. Kaupmáttur launa hafi nú rýrnað um 12,6% frá því að hann var hér mestur í janúar árið 2008. Á síðustu tólf mánuðum hefur kaupmáttur lækkað um 3,6% og segir greiningardeildin að gera megi ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi rýrnað enn frekar, þá m.a. sökum þess að atvinnuleysi hefur  aukist mikið undanfarið og skattar hafa hækkað.

„Sú kaupmáttarskerðing sem íslenskir launþegar hafa orðið fyrir undanfarin misseri á sér fá fordæmi hér á landi og þarf að fara aftur til byrjun tíunda áratugar síðustu aldar til þess að finna álíka þróun,“ segir í Morgunkorni.

„Jafnframt hefur kaupmáttur launa ekki rýrnað jafn mikið á einu ári og 2009 í a.m.k. tvo áratugi, eða eins langt og tölur Hagstofunnar ná. Þessi mikla kaupmáttarrýrnun hefur því leitt til þess að kaupmáttur er kominn aftur til ársins 2002. Telja má líklegt að kaupmáttur komi til með að skerðast enn frekar á næstunni enda nokkuð ljóst m.v. ástandið á vinnumarkaði að samningsstaða flestra launþega er nokkuð veik.“

Greining Íslandsbanka segir að á sama tíma muni verðbólgan verða áfram talsverð á næstu mánuðum. Samkvæmt nýlegri spá muni mæld verðbólga aukast jafnt og þétt næsta kastið og ná hámarki í 9,4% í mars, en í kjölfarið telur greiningardeildin hins vegar að draga muni úr verðbólgunni að nýju. Þannig megi reikna með að kaupmáttur taki ekki að aukast á ný fyrr en í fyrsta lagi undir lok ársins.