Ljóst er út frá þeim aðstæðum sem nú ríkja í hagkerfinu að frekari lækkun húsnæðisverðs á næstu misserum er framundan.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en samkvæmt mælingum Hagstofunnar lækkaði íbúðaverð á landinu öllu um 3% í febrúar frá fyrri mánuði sem meiri lækkun á milli mánaða en sést hefur frá upphafi vísitölunnar árið 2000.

Húsnæðisverð hefur nú lækkað um 6,2% að nafnverði undanfarna 12 mánuði sem samsvarar því að raunverð húsnæðis hafi á sama tíma lækkað um rúmlega 20%.

Í Morgunkorni kemur fram að algjör viðsnúningur hefur nú orðið á húsnæðismarkaði.

„Viðsnúningurinn var hafin áður en fjármálakreppan brast á í haust en kreppan gerir það að verkum að viðsnúningurinn verður mun snarpari og meiri en ella,“ segir í Morgunkorni.

„Það sem markaði upphaf viðsnúningsins í byrjun síðasta árs var samspil margra mismunandi þátta. Spurn eftir íbúðum fór minnkandi vegna skerts aðgengis að lánsfé og hækkandi lánsfjárkostnaðar. Þá voru blikur á lofti í hagkerfinu og minnkandi kaupmáttur og aukið atvinnuöryggi dró úr áhuganum á íbúðarkaupum. Síðastliðið sumar hrinti ríkisstjórnin úr vör aðgerðaáætlun til varnar fasteignamarkaðinum til að reyna að brjóta á bak aftur þessa þróun og snúa við blaðinu. Aðgerðirnar höfðu strax áhrif á íbúðamarkaðinn sem hrökk í gang í kjölfarið en aðgerðirnar  dugðu þó skammt.“

Þá segir Greining Íslandsbanka að með bankahruninu í haust hafi sú kólnun sem ríkt hafði á íbúðamarkaðinum orðið að frosti og ástandið á íbúðamarkaði versnað til muna á nýjan leik.

„Reynsla annarra landa sem lent hafa í fjármálakreppum leiðir í ljós að fjármálakreppur hafa oftast í för með sér skarpa og djúpa lækkun íbúðaverðs,“ segir í Morgunkorni.

„Ekkert bendir til annars en að það sama verði uppi á teningnum hér á landi enda eru fylgifiskar fjármálakreppunnar; samdráttur, atvinnuleysi, lokaðir lánsfjármarkaðir, fólksflótti, minnkun ráðstöfunartekna og vaxandi greiðsluerfiðleikar heimilanna síst til þess fallnir að auka spurn eftir íbúðum.“

Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka.