Greining Íslandsbanka segir verðbólguþróunina á árinu líklega skila því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum í 4,7% á fundi nefndarinnar eftir hálfan mánuð.

Í Markaðspunktum greiningar Íslandsbanka kemur fram að hún telji ólíklegt að verðbólguspá Seðlabankans um 5,6% verðbólgu á síðustu þremur mánuðum ársins gangi eftir. Ætti það að nást þá þyrfti vísitala neysluverðs að hækka um 1,3% og tólf mánaða verðbólgan að stökkva upp í 6,2% í næsta mánuði.

Greiningin bendir hins vegar á að á móti tiltölulega hagstæðri þróun vísitölu neysluverðs þá muni Seðlabankinn líklega benda á að kjarnaverðbólga hafi aukist. Samkvæmt því var verðbólga í mánuðinum 4,6% samkvæmt kjarnavísitölu 3 og hefur hún aukist stöðugt frá áramótum. Seðlabankinn horfir talsvert til þróunar vísitölunnar en í henni eru sveiflukenndir liðir á borð við landbúnaðarvörur, eldsneyti, opinbera þjónustu og vaxtabreytingar í húsnæðislið undanskildir.

Verðbólga mælist nú 5,2% og hefur lækkað nokkuð frá því hún náði 5,7% í september. Hæst náði verðbólgukúfurinn í 18,1% í desember árið 2008.

Eins sjá má á grafinu hér til hliðar hefur verðbólga sveiflast talsvert síðastliðinn áratug. Hún mældist 8,1% í nóvember árið 2001.

12 mánaða verðbólga sl. 10 ár (nóv.2011)
12 mánaða verðbólga sl. 10 ár (nóv.2011)
© vb.is (vb.is)