Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu að í yfirlýsingu peningastefnunefndar kveði við annan tón en í maí. Misvísandi skilaboð peningastefnunefndar séu „tæpast til þess fallin að auka trúverðugleika peningastefnunnar eða gegnsæi hennar.“

Í Morgunkorni er sagt frá þeirri skoðun peningastefnunefndar að þótt verðbólga hafi reynst talsverð á öðrum fjórðungi ársins sé hætta ekki mikil á viðvarandi verðbólguþrýstingi vegna mikils slaka í hagkerfinu og nýlegrar framlengingar kjarasamninga til ársins 2010.

Einnig hafi línur skýrst varðandi aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum og lánasamninga við hin Norðurlöndin, auk þess sem endurskipulagningu fjármálakerfisins miði áleiðis.

„Þetta, ásamt því að skuldastaða hins opinbera og þjóðarbúsins í heild er að skýrast, mun að mati nefndarinnar styðja við þá viðleitni að draga smám saman úr gjaldeyrishöftum án þess að tefla stöðugleika krónunnar í tvísýnu. Þó er varað við að nauðsynlegt geti reynst að hækka vexti á meðan afléttingarferlinu stendur ef aðstæður kalla á slíkt,“ segir í Morgunkorni og sagt að nú kveði við annan tón en í maí þegar góðar líkur hafi verið taldar á myndarlegri vaxtalækkun á komandi mánuðum.

„Þótt gengisþróun krónu hafi verið nokkru óhagstæðari undanfarið en vonir Seðlabankamanna stóðu væntanlega til í maíbyrjun skýrir það varla þennan algera viðsnúning í skilaboðum bankans um mögulega vaxtaþróun á næstunni. Slík misvísandi skilaboð eru tæpast til þess fallin að auka trúverðugleika peningastefnunnar eða gegnsæi hennar,“ segir ennfremur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.