Nýjar lagabreytingar, sem skylda útflytjendur til að selja vörur sínar í erlendri mynt, endurspegla  þau vandkvæði sem eru á því að ná tilgangi gjaldeyrishafta, og um leið þörfina á því að slík höft verði eins skammvinn og kostur er.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en Greining Íslandsbanka telur að lagabreytingin ætti að styðja við krónuna.

Fram kemur í Morgunkorni að með lögunum er girt fyrir að útflytjendur geti fengið greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum og kaupandinn geri á móti upp viðskiptin í erlendum gjaldmiðlum við annan aðila utan landsteinanna.

„Fróðlegt verður að fylgjast með hvort hinar nýju reglur ná þeim tilgangi sínum að styðja við gengi krónu þegar frá líður,“ segir í Morgunkorni.

„Með þeim er vissulega barið í augljósasta brestinn á gjaldeyrishöftunum en reynslan sýnir að ávallt er reynt að fara fram hjá slíkum höftum og erfitt er að setja saman reglur sem girða algerlega fyrir slíkar hjáleiðir. Snör viðbrögð yfirvalda við þeim misbresti sem einkenndi markaðinn á síðustu vikum gætu þó latt menn í leitinni að nýjum leiðum fram hjá reglunum þar sem þeir geta átt von á að slíkt verði skammgóður vermir.“

Sjá nánar í Morgunkorni Íslandsbanka.