Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabanka lækkaði raungengi krónu á öðrum fjórðungi ársins um ríflega 10% frá fyrsta ársfjórðungi ef miðað er við hlutfallslegt neysluverð en um rúm 13% ef miðað er við hlutfallslegan launakostnað.

Greining Íslandsbanka segir raungengi íslensku krónunnar er nú „líklega lægra en nokkru sinni áður frá því hún sagði skilið við hina dönsku stóru systur sína árið 1922.“

Þá kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka að við útreikning á raungengi séu breytingar á nafngengi krónu í raun leiðréttar fyrir hlutfallslegum breytingum verðlags og launa hérlendis og í viðskiptalöndum okkar. Því megi segja að Ísland hafi verið 10% ódýrara heim að sækja á vordögum en í upphafi árs, en að kaupmáttur íslenskra launþega á erlendri grundu hafi minnkað um 13% á sama tíma.

Gengisstyrking eða hækkun launa og verðlags?

„Sagan sýnir að tímabil lágs raungengis hafa verið tiltölulega skammvinn á Íslandi undanfarin 95 ár,“ segir í Morgunkorni.

Þannig hafi þróunin þá gjarnan verið þannig að raungengið hafi lækkað í kjölfar snarprar lækkunar á gengi krónu (oftast í formi opinberrar gengisfellingar) en síðan hafi almenn hækkun launa og verðlags orðið til þess að hækka raungengið að nýju.

„Líklegt er að raungengi krónu muni einnig með tíð og tíma rétta úr kútnum á nýjan leik eftir lækkunina undanfarið, en tíminn mun leiða í ljós hvort hækkunin á sér stað með styrkingu nafngengisins að þessu sinni eða hvort gamla sagan með hækkun launa og verðlags endurtekur sig,“ segir í Morgunkorni.