Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,6% í ágúst frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir eykst tólf mánaða verðbólga úr 5,0% í 5,4% í þessum mánuði. Hagstofa birtir vísitölu neysluverðs þann 25.ágúst næstkomandi.

Greining Íslandsbanka segir að í mælingu ágústmánaðar munu vegast á hækkunaráhrif vegna sumarútsöluloka, verðhækkunar á íbúðarmarkaði og lækkunaráhrif vegna eldsneytisverðs. Gera greiningaraðilar ráð fyrir nærri 6% hækkun á fata- og skóverði við lok sumarútsalna í águst. Þá virðist lítið lát vera á verðhækkun á íbúðamarkaði og gera greiningaraðilar ráð fyrir að áhrifin verði til 0,1% hækkunar á vísitölu neysluverðs í ágúst. Þá er talið að áhrif af kjarasamningum sem gengu í gildi í júníbyrjun séu enn að koma frarm og munu hafa áhrif á verðlag á mat- og drykkjarvörur í mánuðinum sem og á hótelum og veitingastöðum.

Á móti þessum hækkunaráhrifum kemur þróun olíuverðs á heimsmarkaði sem hefur lækkað upp á síðkastið vegna ólgunnar á erlendum mörkuðum. Hefur sú lækkun komið fram að hluta til í eldsneytisverði hér á landi og telja greiningaraðilar að lækkun þess vegi til 0,1% lækkunar á vísitölu neysluverðs.