Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka stýrivexti um 0,5 eða 0,75 próstentur á næsta vaxtaákvörðunardegi sem er þann 23. júní næstkomandi. Líklegra þykir að vaxtalækkunin verði 0,5%. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 6,5% við slíka stýrivaxtabreytingu og vextir á lánum gegn veði til sjö daga verða 8%. Á síðasta fundi peningastefnunefndarinnar þann 5. maí síðast liðinn var ákveðið að lækka vexti um 0,5%. Þá vildu tveir af fimm nefndarmönnum taka stærra skref en gert var.

Frá síðasta ákvörðunardegi peningastefnunefndarinnar hefur gengi krónunnar hækkað um ríflega 3% og um nær 10% frá áramótum. Við síðustu vaxtaákvörðun var verðbólgan 8,3% en er nú 7,5%. Peningastefnunefndin hefur gefið út að ef gengi krónunnar haldist stöðugt eða styrkist og verðbólga hjaðni þá séu forsendur fyrir því að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi. Greiningardeild Íslandsbanka telur líklegt að verðbólgan hjaðni hratt á næstunni og megi reikna með að hún verði nálægt 2,5% verðbólgumarkmiði um mitt næsta ár.

Greining bankans telur að veðlánavextir bankans verði komnir niður í 6% í lok árs, en fimm vaxtaákvörðunardagar eru eftir af árinu. Áhyggjur peningastefnunefndarinnar um aðgengi Íslands að erlendur fjármálamörkuðum takmarkar nokkuð svigrúm hennar til vaxtalækkunar en nokkur óvissa ríkir enn í þeim efnum. Frá síðasta fundi hefur gjaldeyrisforði Seðlabankans aukist um 512 milljónir evra vegna útgáfu ríkisskuldabréfa í evrum og sölu íbúðabréfa úr eignasafni Avens til íslenskra lífeyrissjóða. Það og önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda ætti að létta á ákvörðun peningastefnunefndarinnar og hvetja til vaxtalækkunar.