Greining Íslandsbanka reiknar með því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem er næsta miðvikudag, 20 apríl. Ef spáin gengur eftir verða vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana því áfram í 3,25% og hámarksvextir 28 daga innistæðubréfa í 4,00%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 4,25% og daglánavextir 5,25%.

Spá greiningar er birt er í Morgunkorni í dag.

„Síðasta vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar var 16. mars síðastliðinn og hélt nefndin stýrivöxtum bankans þá óbreyttum. Í yfirlýsingu vegna ákvörðunarinnar sagði nefndin að þar sem horfur eru á að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki ríkir aukin óvissa um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða. Einnig sagði hún að áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapi einnig óvissu til skemmri tíma. Er þetta sama yfirlýsing og fylgdi vaxtaákvörðun nefndarinnar í febrúar. Sögðum við í kjölfarið að líkur væri á því að vaxtalækkunarferlinum væri lokið í bili a.m.k.

Verðbólgan að aukast en gengi krónunnar stöðugt
Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans hefur verðbólgan aukist nokkuð. Fór hún úr 1,9% í 2,3% á milli febrúar og mars síðastliðinn. Gæti verðbólgan farið enn hærra nú í apríl eða upp í 2,5-2,6%. Skýrist þetta aðallega af mikilli hækkun hrávöru- og olíuverðs á alþjóðamörkuðum. Þetta ætti þó ekki að hafa neikvæð áhrif á verðbólguhorfur til lengri tíma á meðan verðbólguvæntingar og launaþróun verða ekki fyrir áhrifum af hækkununum. Þrátt fyrir aukna verðbólgu nú reiknum við með því að verðbólgan verði í grennd við verðbólgumarkmið bankans litið til næstu mánaða. Því er um tímabundna aukningu í verðbólgu að ræða.

Slaki í þjóðarbúskapnum og hækkun á gengi krónunnar undanfarið ár stuðla að lágri verðbólgu um þessar mundir. Þá reiknum við með að niðurstaða í yfirstandandi kjarasamningum muni ekki breyta þessum horfum. Horfur eru á því að verðbólgan verði fremur lág út þetta ár og það næsta að því tilskyldu að gengi krónunnar haldist stöðugt og að eitthvert lát verði á verðhækkun hrávöru og eldsneytis erlendis.

Gengi krónunnar er nú nær það sama og það var á síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar í mars síðastliðnum. Virðist sú lækkunarhrina sem einkenndi fyrstu vikur ársins hafa stöðvast enda mátti telja líklegt að þar væru tímabundnir þættir að verki er tengdust m.a. talsverðum inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undir lok síðastliðins árs og árstíðarbundnum sveiflum á gjaldeyrisflæði til landsins.

Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur ný áætlun um afnám gjaldeyrishafta verið birt. Samkvæmt þeirri áætlun er mun lengra í afnám haftanna en fyrri áætlun gekk út á og er nú reiknað með því að afnema höftin á næstu 4 árum. Líklega mun niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave samninginn einnig draga á langinn afnám hafta. Fyrstu viðbrögð lánshæfismatsfyrirtækjanna Moody´s, Fitch og S&P benda til þess að lánshæfismat íslenska ríkisins muni líða fyrir þessa ákvörðun þjóðarinnar og þar með er útlit fyrir að erfiðara verði fyrir ríkið að sækja sér fé á erlenda markaði.

Á síðasta fundi peningastefnunefndarinnar ræddu nefndarmenn þann möguleika að lækka vexti um 0,25 prósentur eða halda þeim óbreyttum. Lagði seðlabankastjóri til óbreytta vexti. Fjórir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra þótt einn þeirra hefði kosið 0,25 prósentna lækkun vegna vísbendinga um heldur veikari efnahagsumsvif en spáð var í Peningamálum sem komu út í febrúar. Einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og kaus heldur að lækka vexti um 0,25 prósentur vegna áframhaldandi veikrar stöðu þjóðarbúskaparins og skorts á hvers kyns verðbólguþrýstingi innanlands.

Stýrivextir óbreyttir út árið
Virkir raunstýrivextir eru nú 1,0-2,0%. Líkt og Seðlabankinn hefur bent á þá eru þetta lægri raunvextir en taldir voru jafnvægisraunvextir fyrir hrun og að mati bankans hugsanlega líka lægri en þeir sem munu ríkja þegar hagkerfið kemst aftur á beinu brautina. Nú þegar hagkerfið er við botn hagsveiflunnar er eðlilegt að raunvextir séu vel fyrir neðan það sem til lengdar mun gilda. Hækkun raunstýrivaxta er samt væntanleg litið til lengri tíma.

Reikna má fastlega með því að í næstu yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar verði endurtekið að óvissa sé um í hvaða átt næsta vaxtabreyting muni verða. Framundan er afnám gjaldeyrishafta sem kann að kalla á hærri vexti á sama tíma og slakinn í hagkerfinu ástamt lágri verðbólgu gefur svigrúm fyrir vaxtalækkun. Reiknum við með því að verðbólgan muni haldast í grennd við verðbólgumarkmið bankans næstu 1-2 árin og að krónan haldist nokkuð stöðug. Í því ljósi væntum við þess að nefndin haldi vöxtum bankans óbreyttum á næstunni, en þó með þeim skorðum sem uppbygging fjármálakerfisins og áætlun um afnám gjaldeyrishafta setja vaxtastefnunni. Reiknum við með því að nefndin taki að hækka vexti bankans á ný árið 2012 tengt viðsnúningi í hagkerfinu og afnámi gjaldeyrishafta.“