Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um 12% að nafnvirði og 32% að raunvirði frá því að hápunktinum var náð á íbúðamarkaði í byrjun síðasta árs.

Opinberar spár um þróun húsnæðisverðs á næstu misserum gera ráð fyrir frekari verðlækkunum á fasteignamarkaði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en eins og fram kom í gær hækkaði íbúðaverð um 0,8% milli mánaða í ágúst og var það annar mánuðurinn í röð sem íbúðaverð hækkar.

En þrátt fyrir hækkunina síðustu tvo mánuði hefur hefur verð íbúðarhúsnæðis lækkað á síðustu tólf mánuðum um 10,3% að nafnvirði en um 22,7% að raunvirði m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis.

„Teljum við að þessar hækkanir í júlí og ágúst á verði íbúða á höfuðborgarsvæðinu sé aðeins tímabundið flökt á leið íbúðaverðs til frekari lækkunar í þeirri fjármálakreppu sem hagkerfið nú gengur í gegnum,“ segir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni.

Þá kemur fram að samkvæmt opinberum spám mun íbúðaverð lækka hátt í 50% að raunvirði frá því að hápunktinum var náð áður en yfirstandandi lægð lýkur á fasteignamarkaði árið 2011. Samkvæmt því mati er enn umtalsverð lækkun húsnæðisverðs í pípunum.