Lítill áhugi fjárfesta á útboði ríkisbréfa á föstudag hlýtur að vera Seðlabanka og ríkissjóði nokkur vonbrigði, enda var öllum tilboðum hafnað.

Þetta segir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni sínu í dag en þó er tekið fram að Ríkissjóður hafi ágætt borð fyrir báru þar sem lausafjárstaða hans er góð eftir mikla útgáfu ríkispappíra það sem af er ári.

Fyrirhugað var að selja ríkisbréf í flokkunum RIKB 13 og RIKB 25 og hleypa auk þess nýjum tveggja ára ríkisbréfaflokki af stokkunum ef áhugi reyndist fyrir hendi. Tilboð bárust á bilinu 2 - 3 milljarðar króna í hvern þessara flokka fyrir sig, en þeim var öllum hafnað sem fyrr segir.

Greining Íslandsbanka segir jafnframt að tímasetning útboðsins hafi verið fremur óheppileg. Daginn áður birti Seðlabankinn fundargerð Peningastefnunefndar frá því í júlíbyrjun þar sem býsna harður tónn var sleginn varðandi þróun stýrivaxta á næstunni.

„Þetta lagðist fremur illa í skuldabréfafjárfesta og hækkaði krafa á styttri enda ríkisbréfaferilsins nokkuð síðastliðinn fimmtudag,“ segir í Morgunkorni.

„Á föstudag var heldur ekki búið að aflétta óvissu um aðkomu ríkisins að nýju bönkunum og mögulega fjárþörf af þeim sökum. Ríkissjóður er hins vegar ágætlega staddur hvað lausafé varðar þessa dagana og hefur það væntanlega gert þá ákvörðun léttari að hafna öllum tilboðum í útboðinu.“

Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka.