Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í apríl og að verðbólgan fari þá úr 8,5% í 8,3%.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en greiningardeildin hafði kynnt verðbólguspá sína fyrr í þessum mánuði. Aðrar spár gera almennt ráð fyrir hækkun á bilinu 0,3-0,4%.

„Að okkar mati munu síðustu leifar útsöluloka væntanlega hafa mest áhrif til hækkunar vísitölunnar nú enda stilla margar verslanir út sumarvarningi þessa dagana á verði sem að fullu endurspeglar lágt gengi krónu,“ segir í Morgunkorni.

„Af þessum áhrifum frátöldum eru fáar vísbendingar um verulega hækkun á flestum undirliðum vísitölunnar. Áhrif af hægfara styrkingu krónu undanfarið hálft ár virðast þegar vera farin að koma fram í sumum þeirra liða sem næmastir eru fyrir gengisbreytingum. Þá gerum við ráð fyrir lítilsháttar lækkun á húsnæðislið vísitölunnar. Lítill hækkunarþrýstingur virðist einnig vera til staðar í innlendum vöru- og þjónustuliðum, enda mikill slaki á vinnumarkaði og hart barist um aðhaldssama viðskiptavini.“