Verði frumvarp viðskiptaráðherra samþykkt munu stimpilgjöld af fyrstu íbúð falla niður frá og með 1.júlí næstkomandi eins og vb.is greindi frá í gær .

Greiningadeild Kaupþings segir í Hálffimm fréttum sínum að aðgerð sem þessi ætti að öðru óbreyttu að ýta undir eftirspurn á markaði.

„... hins vegar í ljósi aðstæðna á markaði er líklegra að áhrifin verði afar takmörkuð. Má því segja að hér sé fyrst og fremst um táknræna aðgerð að ræða. Á sama tíma og gengi krónunnar hefur gefið verulega eftir er vaxtastig í sögulegu hámarki um þessar mundir og aðgengi að lánsfjármagni takmarkað,“ segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.

„Að mati Greiningardeildar er allt eins líklegt að ríkisstjórnin stígi skrefið til fulls í lok árs og afnemi stimpilgjöld á öllum lántökum til íbúðakaupa samhliða því sem skýr merki hafa komið fram um verðlækkun á fasteignamarkaði.“

Fasteignamarkaður gefur eftir

„Ein meginforsenda þess að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiði sínu er að verðlækkun mælist á fasteignamarkaði, en húsnæðisliður er sá þáttur sem vegur einna þyngst í verðmælingum Hagstofunnar. Fasteignaverð hefur sýnt ákveðna stöðnun í síðustu verðmælingum hjá Fasteignamati ríkisins og merki eru um að kólnun sé hafin á fasteignamarkaði. Þrátt fyrir að dregið hafi úr verðhækkun fasteigna er tólf mánaða hækkun fasteignaverðs enn í kringum 13%. Að mati Greiningardeildar mun hratt draga úr hækkunarhraðanum á næstu mánuðum og verðlækkun mælast á fasteignaverði í lok árs,“ segir jafnframt í Hálffimm fréttum.