Greiningardeild hefur endurskoðað verðbólguspá sína í ljósi þróunar síðustu vikna. Horfurnar hafa versnað verulega til skamms tíma samfara gengislækkun krónunnar og er allt útlit fyrir að verðbólga haldist há út árið 2008.

Þá mun draga úr verðbólguhraðanum á árinu 2009 í kjölfar lækkandi fasteignaverðs ásamt því sem gert er ráð fyrir að gengi krónunnar rétti úr kútnum. Gert er ráð fyrir að Seðlabankinn nái ekki verðbólgumarkmiði sínu fyrr en um mitt árið 2009. Þetta kemur fram í endurskoðun greiningardeildar Kaupþins á verðbólguspá sinni.

Greiningadeildin segir það einkum þrjá þætti sem hafa verðbólguhorfum litið til skamms tíma:

I. Gengisveiking krónunnar

„Krónan hefur gefið verulega eftir og gengisvísitalan stendur um þessar mundir í rúmlega 155 stigum. Áhrif gengisbreytinga á verðlag (e. exchange rate pass-through) koma yfirleitt fram með snöggum hætti hér á landi – á fyrstu þremur mánuðum frá gengisveikingu eru áhrifin sterkust. Greiningardeild gerir ráð fyrir að áhrif veikari krónu komi nú fram á næstu mánuðum – sem svipar til þess og átti sér stað í lok árs 2006,“ segir greiningadeildin.

II. Hrávörur í hæstu hæðum

„Heimsmarkaðsverð á hrávörum hefur farið hækkandi síðustu mánuði. Hráolíuverð er í sögulegu hámarki um þessar mundir og á sama tíma hafa aðrar hrávörur jafnframt hækkað í verði. Þessi þróun hefur áhrif til að hækka kostnað fyrirtækja – sem skilar sér á endanum út í verðlag til neytenda.“

III. Óvissa með áhrif kjarasamninga á launakostnað fyrirtækja

„Óvissa ríkir um hvaða áhrif kjarasamningar hafa á almennan launakostnað. Engar vísbendingar hafa komið fram um slaka á vinnumarkaði og er því sú hætta fyrir hendi að niðurstaða samninga gæti ýtt af stað launaskriði í hagkerfinu á næstu mánuðum. Hins vegar er ljóst að samningarnir eru framhlaðnir og töluvert miklar hækkanir munu koma fram nú við samþykkt þeirra og það mun ýta við verðbólgunni á næstum mánuðum,“ segir í skýrslu greiningadeildar Kaupþings.