Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, segir í samtali við Ríkisútvarpið að vinna með skattagögn sem voru keypt af huldumanni fyrir 37 milljónir króna í vor sé langt á veg komin. Embættið sé nú að ákveða hvað verði gert með upplýsingarnar.

Í gögnunum koma fram meint skattaundanskot íslenskra félaga sem hafi fært fé í erlend skattaskjól. „Já, við erum búin að vinna í þessum gögnum í sumar, fara yfir þau og greina og átta okkur á því sem við erum með í höndunum. Sú vinna er á lokametrunum. Þegar það liggur fyrir, þá verða ákvarðanir teknar um næstu skref,“ er haft eftir Bryndísi.

„Ég þori nú ekki að segja nákvæmlega hvenær það verður, en þetta er á lokametrunum, þessi fyrsti áfangi,“ segir hún jafnframt.

Aðspurð segir Bryndís að ekki sé hægt að segja til um á þessu stigi máls hve mikið gæti fengist innheimt á grundvelli upplýsinganna.

„Nei, og ég hef nú talað mjög varlega í því efni. Þetta eru gögn sem gefa skattayfirvöldum færi á því að hefjast handa. En þau eru ekki þess eðlis að það sé hægt að leggja mat á einhverjar fjárhæðir í því efni,“ segir Bryndís.