Eftir að hafa starfað í um tvo áratugi á fjármálamarkaði, hefur Gunnar Bjarni Viðarsson hagfræðingur snúið sér að greiningarvinnu á ný. „Ég var að vinna hjá IFS Greiningu í nokkur ár fyrir og í kringum hrun, en ég kem hérna inn núna með frekar sterkan bakgrunn í skuldabréfum og ákveðinni gagnavinnslu og greiningu út frá gögnum svo ég býst við að þar verði megináhersla mín, en svo veit maður að inn á borð munu detta alls kyns verkefni,“ segir Gunnar.

„Síðast starfaði ég hjá rekstrarfélagi Virðingar þar sem ég sá um skuldabréfasjóði, en þar á undan var ég í eignastýringunni hjá fyrirtækinu. Fyrir það var ég svo að miðla hjá fyrirtækinu, en áður hafði ég verið að miðla hjá Straumi og hjá Saga Capital.“

Gunnar Bjarni hefur lengi haft töluverðan áhuga á hjólreiðum en hann flutti ungur til Þýskalands þar sem hann hjólaði til dæmis niður Rínardalinn og yfir til Hollands. Tour de Francekeppnin naut mikilla vinsælda í landinu á þeim árum. „Ég hef haft áhuga á þeirri keppni síðan og kaupi ég mér áskrift að keppninni á hverju sumri,“ segir Gunnar sem tók upp á því fyrir tæplega tveimur árum að hjóla sjálfur í vinnuna.

„Ég kann bara mjög vel við það, finnst það besta sem ég geri að byrja daginn á því að hjóla, en ég bý í efri byggðum Kópavogs svo þetta eru um 10 kílómetrar aðra leiðina. Þetta tekur mig svona innan við hálftíma að hjóla niður eftir en aðeins lengur heim. Það er æðislegt að losa svona aðeins um og slaka á huganum, ég mæli eindregið með þessu.“

„Börnin mín og konu minnar, Ingu Láru Ólafsdóttur, eru þrettán, átta, sex og tveggja ára, þetta er ágætis áhættudreifing. Fyrir utan að sinna fjölskyldunni og hjóla hef ég svo mjög gaman af forritun sem ég fór að setja mig inn í fyrir nokkrum árum og tekið námskeið í, til að mynda í svokölluðum sjálflærandi tauganetum og notkun þeirra í gervigreind. Þróunin í þessum geira er mjög spennandi og býður upp á ýmsa möguleika til að mynda í greiningarvinnu í framtíðinni.“