„Það kom okkur svolítið á óvart hvert umfang leiðréttingarinnar er, en 150 milljarðar eru við efri mörk þess sem við bjuggumst við. Það er þó minna en matsfyrirtækið S&P gerði ráð fyrir þegar það færði niður horfur um lánshæfismat ríkissjóðs í sumar, eða 170 milljarðar (10% landsframleiðslu). Stór hluti þessara fjármuna kemur auðvitað frá ríkissjóði í gegnum aukna tekjuöflun, og það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort það sé sanngjarnasta ráðstöfun þeirra fjármuna að lækka skuldir ákveðins hóps – sérstaklega þegar aðrir kostir eru vegnir metnir, t.d. sá að greiða upp Seðlabankabréfið og draga þannig bæði úr peningamagni í umferð og skuldum ríkissjóðs um leið,“ segir Hafsteinn Gunnar Hauksson hjá Greiningadeild Arion banka um fyrirhugaðar skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar.

Hafsteinn segir að það sé engu að síður margt snjallt í útfærslu hugmyndanna, fyrst sú ákvörðun hafi verið tekin á vettvangi stjórnmálanna að lækka skuldir heimila. „Það er til að mynda ágætt að gefa fólki kost á að nýta séreignasparnað sinn til að greiða inn á húsnæðislán. Þannig er verið að nota raunverulegan sparnað til að lækka skuldir, en með því að greiða inn á verðtryggt húsnæðislán er lántakinn að tryggja sér áhættulausa raunávöxtun sem nemur vöxtum lánsins – það þarf alls ekki að vera verra að gefa almenningi færi á að bygga upp sparnað sinn þannig en í gegnum lífeyrissjóðakerfið. Þá dregur það jafnframt úr fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna, sem hefur öll beinst á innlenda eignamarkaði vegna gjaldeyrishaftanna með tilheyrandi hættu á þrýstingi á eignaverð undanfarin ár,“ segir Hafsteinn.

Hafsteinn segir að Greiningadeild Arion banka velti beinu  niðurfellingu lánanna meira fyrir sér. „Umfang beinu niðurfærslunnar nemur 80 milljörðum króna. Ef öllum áhrifum hennar hefði verið dreift yfir fjögurra ára tímabil, þá hefði tæpast þurft að missa svefn yfir efnahagslegum áhrifum hennar – útgreiðslur vegna séreignasparnaðar, sérstakra vaxtaniðurgreiðslna og gengislána hafa til dæmis ekki verið mikið minni á undanförnum árum án þess að það setti hagkerfið á hliðina. Hinsvegar er áhættusamara að láta áhrif allrar niðurgreiðslunnar koma fram á greiðslubyrði í einu, eins og okkur sýnist vera gert ráð fyrir. Það gæti skapað þrýsting á eftirspurn í hagkerfinu og þar með verðlag og jafnvel gengi krónunnar ef eftirspurn eftir innflutningi eykst mikið. Það eykur hættuna á þenslu að heimilin sem njóta niðurfellingarinnar séu ekki endilega aðþrengd, eins og gilti t.d. um 110% leiðina. Hámark á niðurfærslu dregur þó úr þessari áhættu, en það er jafnframt hughreystandi að sjá að nefndin hefur íhugað mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegra þensluáhrifa aðgerðanna, og jafnframt að sjá vinnuna sem lögð hefur verið í að leggja mat á áhrifin,“ segir hann.

Stóra málið í þessu öllu sé svo hvernig verði staðið að fjármögnun aðgerðarinnar. „Það er jákvætt að sjá skýrt kveðið á um að ríkissjóður auki ekki skuldsetningu sína vegna hennar, líkt og matsfyrirtæki höfðu áhyggjur af. Hinsvegar verður fróðlegt að sjá hver viðbrögð við aukinni sértækri skattlagningu verða. Erlend matsfyrirtæki lýstu til að mynda áhyggjum af því að fjármögnun aðgerðanna gæti hafi neikvæð áhrif á traust fjárfesta á innlent stofnanaumhverfi og stjórnsýslu. Sennilegast er þó of snemmt að fullyrða hvort þær áhyggjur hafi verið réttlætanlegar,“ segir hann.