Greiningadeild Kaupþings segir árið 2007 vera það slakasta frá árinu 2001. Þetta kemur fram í hálffimm fréttum Kaupþings í dag.

Í frétt Kaupþings segir, „Miklar sveiflur einkenndu innlendan hlutabréfamarkað á árinu 2007, jafnvel meiri en á árinu 2006 þegar neikvæðar erlendar skýrslur um horfur í efnahagsmálum og hjá bönkunum settu svip sinn á markaðinn. Árið í ár var þó frábrugðið síðasta ári að því leyti að vandinn sem fjárfestar glímdu við var alþjóðlegur en fyrst og fremst heimatilbúinn í fyrra. Þegar best lét í júlí hafði Úrvalsvísitalan hækkað um 40% frá ársbyrjun en þegar markaðir lokuðu í dag á síðasta viðskiptadegi ársins stóð vísitalan í 6.318 stigum. Það jafngildir 1,4% árslækkun samanborið við 15,8% hækkun í fyrra. Er hlutabréfaárið 2007 því það versta síðan árið 2001 þegar vísitalan lækkaði um 11,2%. Auk mikilla sveiflna var jafnframt metvelta á hlutabréfamarkaði - um 3.100 milljarðar króna samanborið við 2.192 milljarða árið 2006."

Kaupþing segir árið hafa farið vel af stað á hlutabréfamarkaði líkt og árið 2006. Úrvalsvísitalan fór yfir 7.000 stig strax í janúar og hækkaði um 9,9%. „Markaðurinn - drifinn áfram af ágætum afkomutölum frá fjármálafyrirtækjum og væntingum um áframhaldandi yfirtökur og vöxt erlendis - hélt áfram að hækka jafnt og þétt á næstu vikum og mánuðum og nam hækkun Úrvalsvísitölunnar um 16,9% á fyrsta ársfjórðungi."

Úrvalsvísitalan í hæstu hæðum í júlí

Úrvalsvísitalan hélt áfram að hækka á öðrum ársfjórðungi og hækkaði þá um 10,8%. Það var síðan í júlí sem hún fór yfir 9.000 stig, nánar tiltekið þann 18. júlí. Eftir það varð áhrifa bandarísku undirmálslánakrísunnar fyrst vart af einhverju ráði hérlendis. Hlutabréf, einkum í fjármálafyrirtækjum, tóku að lækka hratt á mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum  þegar lausafé var dregið út úr bankakerfum í ágúst. Kaupþing segir íslensku kauphöllina ekki hafa farið varhluta af þessum hræringum þar sem vægi fjármálafyrirtækja er um 90% af markaðsverðmæti þeirra félaga sem skipa Úrvalsvísitöluna. Á einum mánuði féll íslenski markaðurinn um 16%.

Síðustu mánuðir ársins erfiðir

Þegar liða fór á haustið fór ástandið á lánsfjármörkuðum að versna enn frekar. Mörg erlend fjármálafyrirtæki hafa þurft að afskrifa miklar fjárhæðir vegna verðfalls á fasteignatengdum verðbréfum

Í nóvember lækkaði vísitalan lækkaði um 13,9% sem er mesta lækkun hennar á einum mánuði. Viðsnúningur á þessari þróun hefur ekki enn átt sér stað en í desember hefur Úrvalsvísitalan fallið um 9,6%, sem er mesta lækkun hennar í lokamánuði ársins á þessari öld. Úrvalsvísitalan lækkaði því um 22,2% á síðustu tveimur mánuðum ársins segir í hálffimm fréttum Kaupþings.